Vorráðstefna Ráðgjafar- og greiningarstöðvar 2024
Ákall hefur verið eftir aukinni kynfræðslu fyrir börn og ungmenni sem mikilvægt er að bregðast við. Hvað með börn og ungmenni með fjölbreyttan taugaþroska? Hvernig þarf að huga að kynfræðslu fyrir þann hóp og hvers vegna er mikilvægt að aðlaga kennsluhætti og fræðsluefni til að mæta mismunandi þörfum? Þessum spurningum ásamt fjölmörgum öðrum verður svarað á ráðstefnunni.
Markmið ráðstefnunnar er að vekja athygli á mikilvægi þess að huga að ólíkum þörfum hvað kynheilbrigði varðar til að mæta betur börnum með fjölbreyttan taugaþroska, allt frá fyrstu aldursárum yfir á fullorðinsaldur. Á ráðstefnunni verður umfjöllun um almenn hagnýt ráð tengd kynfræðslu til að stuðla að kynheilbrigði barna og ungmenna og þær áskoranir sem foreldrar og fagfólk standa frammi fyrir varðandi kennsluhætti um kynheilbrigði.
Aðalfyrirlesari ráðstefnunnar verður Dr. Kathryn Pedgrift sálfræðingur frá North Bay Regional Center of California. Hún mun fjalla um mikilvægi félagsfærnikennslu og kynfræðslu fyrir fólk með fjölbreyttan taugaþroska. Hún mun kynna nýtt gagnreynt kennsluefni sem fyrirhugað er að þýða á íslensku og hægt er að nýta í kennslu fyrir börn, ungmenni og fullorðna.
Á ráðstefnunni verður einnig fjallað um áskoranir ungmenna með fjölbreyttan taugaþroska á netinu, fræðsla verður um læknisfræðileg inngrip sem hafa áhrif á kynþroska, erindi verður um hinsegin og skynsegin börn og ungmenni, umfjöllun verður um stuðning og þarfir fyrir heilbrigt kynlíf og rætt verður um áskoranir og tækifæri skólahjúkrunarfræðinga þegar kemur að kynfræðslu.
Kynning verður á nýju námsefni um kynfræðslu fyrir öll skólastig og fjölbreyttar þarfir auk þess sem rætt verður um hvernig hægt er að greina á milli viðeigandi og óviðeigandi kynhegðunar út frá aldri og þroska barna og hvernig hægt er að bregðast við óviðeigandi kynhegðun barna og ungmenna strax á leikskólaaldri og fram á fullorðinsár.
Reynsla og upplifun fullorðinna og barna með ólíkar þarfir mun endurspeglast í erindum sem og umfjöllun um hvernig hægt sé að huga að, mæta og styðja við börn og ungmenni í leik-, grunn- og framhaldsskóla.
Ætlunin er að ráðstefnan hafi hagnýtt gildi og verði liður í því að staðið sé betur að kynfræðslu fyrir börn og ungmenni með fjölbreytan taugaþroska sem og gefi þeim sem starfa með fullorðnu fólki innblástur hvernig megi styðja betur við kynverund fullorðins fatlaðs fólks sem hefur fram til þessa fengið takmarkaða kynfræðslu.
Boðið verður upp á veitingar í kaffihléum sem og hádegisverðarhlaðborð á fimmtudeginum!
Von er á góðri þátttöku og því er mikilvægt að tryggja sér sæti sem fyrst!