Lostin til hlýðni: Misbeiting atferlismeðferðar

Í fyrirlestrinum mun dr. Dean Adams fjalla um með hvaða hætti atferlismótun er beitt með ákveðnum hópum fatlaðs fólks, sérstaklega fólki með þroskahömlun og atferlisskerðingar. Kastljósinu verður einkum beint að raflostaðferðum sem notaðað eru á Judge Rothenberg Center í Bandaríkjunum. Jafnframt verður kynnt gagnrýni samtaka einhverfs fólks á beitingu aðferða hagnýtrar atferlisgreiningar. Fyrirlesturinn er haldinn í samstarfi Deildar menntunar og margbreytileika á Menntavísindasviði og Rannsóknarseturs í fötlunarfræðum á Félagsvísindasviði.

 

Dean Adams er með doktorsgráðu í sérkennslu og diplóma í fötlunarfræðum og kynjafræðum frá Syracuse University. Hann starfar nú á Skrifstofu margbreytileika við University of Illinois í Chicago. Rannsóknir Dr. Adams hafa m.a. falist í gagnrýnni greiningu á sérkennslu, farveg sumra nemenda „frá skóla til fangelsa” og hátt hlutfall litaðra barna og ungmenna í sérkennslu. Þá hefur hann rannsakað stuðning við hinsegin nemendur og aðferðir sem beitt er við agastjórnun í skólakerfinu. Um þessar mundir rýnir hann í tengsl transgender fræða og fötlunarfræða. Dean hefur unnið sem sérkennari í almennum skólum og unglingafangelsum fyrir pilta í New York ríki.