Yfirfærsla málefna fatlaðra til sveitarfélaga
Verkefnisstjórn hefur látið taka saman hagnýtar upplýsingar varðandi undirbúning og framkvæmd á yfirfærslu þjónustu við fatlaða frá ríki til sveitarfélaga. Krækjan er virkjuð í dag 16. desember 2009 á slóðinni:
http://www.felagsmalaraduneyti.is/yfirfaersla/
Verkefnisstjórn hvetur sveitarstjórnir og aðra sem málið varðar til þess að kynna sér upplýsingarnar vandlega. Verkefnisstjórnin og ráðgjafar hennar, Sigurður Helgason og Hólmfríður Sveinsdóttir hjá Stjórnháttum ehf. eru jafnan reiðubúin til aðstoðar og ráðgjafar. Rétt er að nota tækifærið og skýra frá ýmsum verkefnum sem eru í vinnslu á vegum verkefnisstjórnarinnar.
Lagabreytingar
Vinnu við frumvarp til breytinga á lögum um málefni fatlaðra miðar vel. Samtímis er unnið að því að setja saman texta að formlegum samningi milli ríkis og sveitarfélaga um yfirfærsluna. Lagaákvæði sem þarf að breyta með frumvarpinu eru mjög tengd texta samningsins og því var ákveðið að leggja ekki áherslu á að koma frumvarpinu á dagskrá Alþingis fyrir jól eins og tímaáætlun verkefnisins gerir ráð fyrir. Stefnt er að því að ganga endanlega frá frumvarpinu þegar samningstexti liggur fyrir og leggja það fyrir vorþing til afgreiðslu.
Á vegum samgöngu- og sveitarstjórnaráðuneytisins er unnið að endurskoðun tekjustofna sveitarfélaga og grundvallar enduskoðun á regluverki Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.
Kostnaðarmat
Samhliða lagabreytingum er unnið að því að fullgera kostnaðarmatið en þar hafa húsnæðismálin reynst tímafrekust. Nú er unnið að því að taka saman heildarskrá yfir húsnæði í landinu sem tengt er þjónustu við fatlaða. Í skránni mun m.a. koma fram matsvirði og mat á eignarhaldskostnaði hverrar eignar. Þegar þær upplýsingar liggja fyrir verður unnt að taka afstöðu til þess hvernig farið verður með húsnæðisþáttinn við tilfærslu málaflokksins.
Verkefnisstjórn hefur ákveðið að beita sér fyrir því að þjónustuþörf fatlaðra á landsvísu verði metin á árinu 2010. Beitt verður svonefndu SIS-matskerfi til að afla áreiðanlegra upplýsinga við yfirfærsluna og við endurmatið sem fram fer 2014. SIS-matið verði þannig nýtt sem grunnur fyrir kostnaðarmatið og sem ein af forsendum jöfnunarkerfis á vegum Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.
Starfsmannamál
Samráðshópur um starfsmannamál hefur gert samanburð á réttindum starfsmanna samkvæmt kjarasamningum Launanefndar, Reykjavíkurborgar og samninganefndar ríksins. Einnig liggja fyrir drög að skýrslu samráðshópsins. Kjarasvið Sambands íslenskra sveitarfélaga vinnur nú að greiningu á heildaráhrifum flutnings málaflokksins á launakerfi og samningsumhverfi sveitarfélaga.
Samráðhópurinn gerði svohljóðandi bókun á síðasta fundi: Samráðshópurinn er einhuga um að vinna áfram að því að ná sameiginlegri niðurstöðu um markmið og tillögur vegna yfirfærslunnar. Vakin er athygli á því að þjónusta við fatlaða er sérhæfður málaflokkur sem sinnt er af sérmenntuðu fagfólki og starfsmönnum sem búa yfir mikilli reynslu og þekkingu. Við yfirfærslu er því mikilvægt að finna réttláta leið svo atgervi starfsmanna megi nýtast eftir yfirfærsluna í þágu notenda og með hagsmuni starfsfólksins að leiðarljósi.