Þroskaþjálfun og réttindabarátta
Sérstaða þroskaþjálfa er annars vegar víðtæk og hagnýt þekking á sviði stefnumótunar, skipulags og framkvæmdar heildrænnar þjónustu og hins vegar einstaklingsmiðuð þjónusta, óháð aldri og aðstæðum. Hugmyndafræðin er grundvölluð í lögum, reglugerð og siðareglum þroskaþjálfa. Hún byggir m.a. á jafnrétti, virðingu fyrir sjálfsákvörðunarrétti og mannhelgi. Hver manneskja er einstök og á rétt til fullrar þátttöku í samfélaginu á eigin forsendum. Í hartnær 50 ár hefur réttindabarátta og réttindagæsla verið stór þáttur í starfi þroskaþjálfa og hefur stéttin tekið þátt í að móta þjónustu og ryðja í burt hindrunum í samfélaginu í því skyni að bæta lífsskilyrði, lífsgæði og jafna tækifæri fólks. Stéttin hefur því knúið fram miklar breytingar í málaflokknum og verið leiðandi afl við það gríðarlega mikilvæga verkefni að flytja málaflokkinn frá ríki til sveitarfélaga til að aðgengi að allri þjónustu sé í nærumhverfi fatlaða einstaklingsins líkt og hjá öllum öðrum þegnum landsins.
Ljóst er að þroskaþjálfar eru ráðgefandi sérfræðingar í að móta og innleiða nýjungar í þjónustu. Störfin hafa í gegnum árin breyst gífurlega samfara allri þróun í hugmyndafræði. Jafnframt hefur ábyrgð, álag og meiri kröfur um sérþekkingu aukist en launin endurspegla ekki þá ábyrgð sem felst í starfi þroskaþjálfa. Þegar horft er til launakönnunarinnar sem gerð var fyrir öll aðildarfélög BHM kemur í ljós að nær helmingur allra þroskaþjálfa hafa starfsfólk beint undir sinni stjórn sem er töluvert hærra hlutfall en hefðbundið er meðal félagsmanna BHM. Auk þess sem ríflega þriðjungur ber fjárhagslega ábyrgð sem er mun hærra en gerist hjá öðrum stéttum innan BHM. Þrátt fyrir þessa ábyrgð eru meðallaun stéttarinnar fyrir febrúar 2013, 100.000 kr. lægri en meðallaun annarra félagsmanna hjá BHM. Beint samhengi er við hlutfall kvenna í fagstéttum og launakjör og því fleiri konur sem eru innan stéttarfélagsins því lægri laun. Þroskaþjálfar eru kvennastétt sem vinnur í þjónustu við vanmetinn hóp og skýrir það því miður launakjörin.
Eitt helsta baráttumál Þroskaþjálfafélags Íslands síðast liðinn áratug hefur verið að fá skilgreindar stöður þroskaþjálfa í félagslegri þjónustu sem og í skólakerfi landsins. Þroskaþjálfi þarf starfsleyfi frá Landlæknisembættinu og hefur lögverndað starfsheiti en þrátt fyrir það hefur stéttin ekki lögverndaðar ráðningar.Þroskaþjálfafélag Íslands gerir þá kröfu að fatlað fólk eigi rétt á þjónustu þroskaþjálfa. Slík breyting yrði til þess tryggja að fagþekkingar sé beitt við þjónustu sem er bundin í lög. Mikil þörf er á viðurkenningu á störfum þroskaþjálfa við hlið annarra fagstétta í því velferðar- og menntakerfi sem þjóðin vill bjóða uppá.
Þessi umfjöllun birtist í Fréttablaðinu föstudaginn 22. nóvember síðst liðinn ásamt umfjöllun um BHM og önnur aðildarfélög. Hægt er að nálgast blaðið í heild sinni hér.