ÞÍ mótmælir niðurskuðraraðgerðum Reykjavíkur

 

Reykjavíkurborg hóf í gær að skerða kjör starfsmanna með óviðunandi aðgerðum og illskiljanlegri aðferðafræði.  Margir þroskaþjálfar verða fyrir barðinu á niðurskurðinum.  Þar sem niðurskurðurinn felst í að draga úr vinnuframlagi (yfirvinnu)  er ljóst að þeir íbúar Reykjavíkur sem þurfa á þjónustu þroskaþjálfa að halda fá skerta þjónustu.  Þar er að stærstum hluta verið að tala um fötluð börn  og fjölskyldur þeirra. Við hljótum að spyrja okkur hvort það sé sá hópur sem fyrst eigi að verða fyrir barðinu á niðurskurðinum! 

Þetta bréf var sent mannauðsstjóra Reykjavíkur í gærkvöldi.

Sæll Hallur Páll!

Dökkur dagur í mannauðsstefnu Reykjavíkurborgar er að kvöldi kominn og trúlega lofar morgundagurinn í engu meiri birtu.  Ég færi hér formlega kvörtun yfir því algera samráðs og samstarfsleysi sem viðhaft hefur verið í aðdraganda og framkvæmd niðurskurðaraðgerða Reykjavíkurborgar.  Það kann að vera að þér þyki nóg að gert með fundi sem þú áttir með formönnum heildarsamtaka launþega, þ.m.t BHM þar sem munnlega var kynnt að til stæði að skera niður launakjör hjá starfsmönnum borgarinnar.  Þau skilaboð bárust ÞÍ skilmerkilega en í trausti síendurtekinna fullyrðinga um vilja og óskir Reykjavíkurborgar á opnu og virku samstarfi við ÞÍ trúði ég því fram á síðustu stundu að haft yrði samband og málin kynnt með það að markmiði að vinna sameiginlega að því framkvæma boðaðan niðurskurð.  Í  morgun þegar mér fóru að berast símtöl frá óttaslegnum og óöruggum félagsmönnum mínum var mér ljóst að allt tal um samstarf og samráð náði ekki til jafn mikilvægs hlutar og þess þegar starfsmenn Reykjavíkurborgar og félagsmenn ÞÍ væru að upplífa kjaraskerðingu.

Mér er fullljóst að aðgerðir ykkar eru viðbrögð við því alvarlega efnahagsástandi sem hér ríkir og vert að fagna því að aðgerðunum er ætlað að bitna minnst á þeim sem lægstu launin hafa enda eru bök þeirra varla fær um þyngri byrðar en þær sem minnkandi kaupmáttur leggur þegar á þau.  Ég er hins vegar mjög ósátt við framkvæmd aðgerðanna í grunnskólum borgarinnar þar er ekki gætt jafnræðis  milli starfsmanna og niðurskurðarreglurnar virðast ekki ganga þar upp.  Ég á alla vega mjög erfitt að átta mig á útfærslu þeirra m.t.t. yfirvinnu þroskaþjálfa sem er byggð á vinnuramma sem miðar við 38 vikna tímabil og rennur út í byrjun júní n.k..  En vinnutilhögun þroskaþjálfa í grunnskólum þarf ekki að útskýra fyrir þér þannig að þér hlýtur þá að vera ljóst að allur niðurskurður á yfirvinnu þeirra þýðir minni þjónusta við þá nemendur sem þeir sinna.  Þá liggur beinast við hjá mér að spyrja hvort það séu fatlaðir nemendur sem fyrst verða fyrir barðinu á niðurskurðinum?  Er það stefna Reykjavíkurborgar?

Ég fer hér með fram á að breytingar á kjörum þroskaþjálfa í grunnskólum taki ekki gildi fyrr en í lok skólaárs.  Með því er jafnræðis gætt og bæði meðal starfsmanna og nemenda.  Jafnframt óska ég eftir fundi þar sem niðurskurðaraðgerðir borgarinnar verði kynnar

 

 

Virðingarfyllst,

Salóme Þórisdóttir, formaður