Starfsdagar á Selfossi
Þroskaþjálfar halda starfsdaga í dag og á morgun á Hótel Selfossi þar sem yfirskriftin er “Þroskaþjálfun – hlutverk og framkvæmd”.
Góð mæting er á starfsdaganna þar sem um 140 þroskaþjálfar hafa skráð sig. Aðferðafræði starfsdaganna er sú sama og notuð var á þjóðfundinum. Þroskaþjálfar hafa setið námskeið í þessari skemmtilegu aðferðafræði þar sem markmiðið er að kalla fram margar og fjölbreytilegar hugmyndir frá öllum þátttakendur og geta allir verið virkir í að leggja fram sínar hugmyndir.
Í fréttatilkynningu frá Þroskaþjálfafélagi Íslands segir að þroskaþjálfar standi á tímamótum þar sem þjónusta við fatlað fólk fluttist frá ríki til sveitafélaga 1. janúar síðastliðinn. Þar af leiðandi hafa fleiri þroskaþjálfar hafið störf hjá sveitafélögum um land allt. Við slíkar breytingar skapast ný tækifæri og leiðir fyrir þroskaþjálfa sem mikilvægt er að nýta.
Á starfsdögunum verða nokkur þemu eða málefni sem þroskaþjálfar telja mikilvægt að leggja áherslu á og þau eru nám, hlutverk, fagleg verkfæri, sýnileiki/ímynd/markaðssetning, hugmyndafræði, þróun/nýbreytni, réttindagæsla, réttindi og kjaramál.