Staðreyndir um launþróun og starfsöryggi

Staðreyndir um launaþróun og starfsöryggi opinberra starfsmanna frá bankahruni

Fréttatilkynning frá formanni BHM

Undanfarið hafa launa- og starfskjör opinberra starfsmanna verið til umræðu, m.a. af hálfu Viðskiptaráðs.  Samanburður hefur þar verið gerður á atvinnumissi á almennum og opinberum markaði og verður ekki hjá því komist að leiðrétta eitt og annað í þeim málflutningi.

 

Undanfarið hafa launa- og starfskjör opinberra starfsmanna verið til umræðu, m.a. af hálfu Viðskiptaráðs.  Samanburður hefur þar verið gerður á atvinnumissi á almennum og opinberum markaði og verður ekki hjá því komist að leiðrétta eitt og annað í þeim málflutningi.

Frosti Ólafsson, aðstoðarforstjóri Viðskiptaráðs, segir meginþorra þess fólks sem misst hefur vinnuna undanfarin misseri hafa starfað á almennum vinnumarkaði. Þetta er rétt, en á sér sínar skýringar. Augljóst er að þegar fyrirtæki falla eða verkefni hverfa með öllu, leiðir slíkt til uppsagna. Verkefnaskortur á hins vegar ekki við hjá hinu opinbera og getur því ekki verið ástæða til uppsagna. Þvert á móti hefur álag almennt aukist.

Fjöldi opinberra starfsmanna hefur talsvert verið gagnrýndur.  Ef markmiðið er að fækka opinberum starfsmönnum, þarf þó fyrst að eiga sér stað umræða og ákvarðanataka um opinbera þjónustu. Ástandið hjá langflestum stofnunum ríkis og sveitarfélaga býður ekki upp á frekari fækkun fagfólks án þess að til komi skerðing á þjónustu.


Staðreyndir um launaþróun og starfsöryggi opinberra starfsmanna frá bankahruni

 Ef launaþróun síðustu 18 mánaða hjá opinberum starfsmönnum úr röðum BHM er skoðuð sést að samningar eru lausir og að engar taxtahækkanir hafa orðið frá miðju ári 2008, á sama tíma og taxtar á almennum markaði hafa hækkað. 

Laun félagsmanna aðildarfélaga BHM hafa á þessu tímabili lækkað umtalsvert, bæði með stöðu- og vinnutímabreytingum, minnkaðri yfirvinnu o.fl.  Laun umfram dagvinnu hafa lækkað um ríflega fjórðung.  Þar með hefur kaupmáttur félagsmanna BHM í sem sinna opinberri þjónustu lækkað meira en almennt hefur gerst.

Starfsöryggi opinberra starfsmanna er ekkert umfram þriggja mánaða uppsagnarfrest.  Mikið er um einhliða breytingar á ráðningarkjörum, ekki er ráðið í störf sem losna, tímabundnir ráðningarsamningar eru ekki framlengdir og almennt ríkir ráðningabann.  Allt þetta leiðir til aukins álags á opinbera starfsmenn.

Við gerð stöðugleikasáttmálans sumarið 2009 sammæltust aðilar um að vernda eftir fremsta mætti störf hjá hinu opinbera og forðast beinar uppsagnir þar til almenni markaðurinn rétti sig af og gæti tekið við fleira fólki.  Þrátt fyrir þetta hefur verið töluvert um beinar uppsagnir opinberra starfsmanna.

Lífeyriskjör opinberra starfsmanna skýrast af þeirri staðreynd að þeir hafa valið að láta stærri hluta launa sinna renna til uppbyggingar lífeyris, enda hafa laun sambærilegra hópa á almennum markaði jafnan verið um 30% hærri en laun opinberra starfsmanna.