Staðan í kjarasamninsgviðræðum BHM við ríkið
Þrettán klukkustunda löngum samningafundi lauk í kvöld með því að ríkissáttasemjari sleit fundi eftir að samninganefnd ríkisins hafnaði tillögu BHM til lausnar deilunni. Enn og aftur fékk samninganefnd BHM það staðfest að um sýndarviðræður hafi verið að ræða. Fjármála- og efnahagsráðherra hefur gert forsendur í kjarasamningum almenna vinnumarkaðarins að sínum, gefið frá sér samningsumboðið og samningsréttur félagsmanna BHM að engu hafður.
Frá upphafi viðræðna hefur samninganefnd BHM gert sanngjarnar og skýrar kröfur um að menntun sé metin til launa og fjármagn verði aukið til stofnanasamninga. Kröfurnar byggjast á sameiginlegum hagsmunum ríkisins og starfsmanna þess. BHM hefur ítrekað lagt fram ýmsar leiðir til lausnar og teygt sig í átt að áherslum samninganefndar ríkisins.
Þessi niðurstaða veldur okkur miklum vonbrigðum og áhyggjum um framhaldið. Það sem við óttuðumst mest er nú þegar að rætast. Það stefnir í neyðarástand, ekki vegna verkfalla, heldur vegna þess að lágmarksmönnun í verkfalli getur orðið varanleg. Ljóst má vera að ekki verður hægt að reka opinbera þjónustu með þeim hætti.
Í skýrslu Ríkisendurskoðunar til Alþingis segir orðrétt: „Ríkið þarf að gera sér grein fyrir hvers konar atvinnurekandi það vill vera og hvernig það geti laðað til sín ungt og hæft starfsfólk og haldið því.“ Samninganefnd BHM gerir orð Ríkisendurskoðunar að sínum.
Eins og félagsmönnum BHM er kunnugt um hafa viðræðurnar farið fram undir hótunum um lagasetningu. Við hvetjum félagsmenn til að missa ekki móðinn og minnum á að samstaða okkar nú er nauðsynleg sem aldrei fyrr.
F.h samninganefndar BHM
Páll Halldórsson, formaður samninganefndar BHM, og Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM.