Staða nemenda með fötlun á sérnámsbrautum verði tryggð ef til sameiningar kemur
Þroskaþjálfafélag Íslands (ÞÍ) lýsir yfir þungum áhyggjum vegna áforma um sameiningu tveggja stærstu framhaldsskóla landsins, Tækniskólans og Fjölbrautaskólans við Ármúla (FÁ). Verði þessi áform að veruleika telur félagið að tryggja verði að allir þroskaþjálfar og aðrir starfsmenn FÁ haldi störfum sínum og kjörum. Einnig að staða nemenda með fötlun, sem stunda nám á sérnámsbrautum við þessa skóla, verði tryggð. Mikilvægt er að þessir nemendur geti áfram sótt nám sitt og fái þá þjónustu sem þeir þurfa á að halda.
ÞÍ er fag-og stéttarfélag þroskaþjálfa og er eitt af aðildarfélögum Bandalags háskólamanna. ÞÍ hefur barist fyrir að fá skilgreindar stöður þroskaþjálfa m.a. í skólakerfi landsins. Þroskaþjálfi þarf starfsleyfi frá Landlæknisembættinu og hefur lögverndað starfsheiti en þrátt fyrir það hefur stéttin ekki lögverndaðar ráðningar. Þroskaþjálfafélag Íslands gerir þá kröfu að fatlað fólk eigi rétt á þjónustu þroskaþjálfa. Slík breyting yrði til þess tryggja að fagþekkingar sé beitt við þjónustu sem er bundin í lög. Mikil þörf er á viðurkenningu á störfum þroskaþjálfa við hlið annarra fagstétta í því velferðar- og menntakerfi sem þjóðin vill bjóða uppá.