Skerðing fæðingarorlofsgreiðslna ógnar jafnrétti og vegur að

Skerðing fæðingarorlofsgreiðslna ógnar jafnrétti og vegur að réttindum barna og fjölskyldna

 

Miðstjórn BHM ályktar um réttindi í fæðingarorlofi

 

 

BHM lýsir andstöðu við frekari skerðingu réttinda í fæðingarorlofi, þar sem slíkt er skref afturábak í jafnréttismálum og vegur að réttindum barna og fjölskyldna. Markmið fæðingarorlofs er að tryggja barni samvistir við báða foreldra og gera bæði konum og körlum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf. 

 

BHM varar eindregið við því að tímabundið erfiðleikaástand í efnahagsmálum verði látið koma svo harkalega niður á samfélagslegum framfaramálum, sem kostað hefur mikla baráttu og fórnir að ná fram.

 

Markmið laga um fæðingarorlof er að jafna stöðu karla og kvenna á vinnumarkaði og tryggja þátttöku beggja foreldra í uppeldi og umönnun barna.  Með breytingum þeim sem gerðar voru síðastliðið sumar var stórlega dregið úr möguleikum karla til töku fæðingarorlofs.

BHM telur betur fara á að markvisst sé unnið að því að uppfylla markmið laganna, enda eru nú ýmsar blikur á lofti hvað varðar jafna stöðu karla og kvenna.