Ólögmæt afgreiðsla sveitarfélags á starfsumsókn félagsmanns
BHM fagnar áliti umboðsmanns Alþingis í máli félagsmanns aðildarfélags BHM þar sem um er að ræða mikilvæga túlkun á ákvæðum kjarasamninga um lausnarlaun.
Í stuttu máli leitaði félagsmaður aðildarfélags BHM til félagsins og lögmanns BHM vegna þess að hann taldi starfsumsókn sína ekki hafa fengið sanngjarna afgreiðslu hjá sveitarfélagi sem hann sótti um starf hjá.
Félagsmaðurinn hafði nokkrum árum áður starfað hjá sveitarfélaginu en var í kjölfar veikindaleyfis leystur frá störfum með greiðslu lausnarlauna. Nú var hann heill heilsu og sótti um annað starf sem hann hafði bæði menntun og starfsleyfi til að sinna. Honum var þá tilkynnt að umsókninni hefði verið hafnað á þeim forsendum að hann hefði þegið lausnarlaun nokkrum árum fyrr og með því til frambúðar fyrirgert rétti sínum til að starfa aftur hjá sveitarfélaginu.
Lögmaður BHM, Andri Valur Ívarsson, mat það svo að afgreiðsla starfsumsóknarinnar hefði verið ólögmæt enda grundvallarregla hjá hinu opinbera að velja beri hæfasta umsækjandann. Sveitarfélagið studdist við túlkun Sambands íslenskra sveitarfélaga og taldi að rétt hefði verið að málum staðið í einu og öllu. Í samráði við umræddan félagsmann var send kvörtun til umboðsmanns Alþingis. Niðurstaða umboðsmanns, sem var samhljóma mati lögmanns BHM, var að afstaða sveitarfélagsins ætti sér hvorki stoð í lögum og reglum sem gilda um starfsemi sveitarfélaga né í viðkomandi kjarasamningi.
Hér má lesa málatilbúnað í heild sinni sem og niðurstöðu umboðsmanns Alþingis.
Fjöldi kvartana vegna starfsmannamála sveitarfélaga
Það vekur athygli að umboðsmaður Alþingis sá tilefni til þess að senda álitið til Sambands íslenskra sveitarfélaga til að hnykkja á þessari túlkun laga um lausnarlaun og til að vekja athygli á fjölda kvartana sem honum hefði borist vegna framgöngu ýmissa sveitarfélaga í starfsmannamálum. Jafnframt sá umboðsmaður sig knúinn til að senda Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu ábendingu vegna sömu kvartana þar sem ráðuneytið sinnir eftirliti með málefnum sveitarfélaga og Sambands íslenskra sveitarfélaga.