Óánægja innan Bandalags háskólamanna með vinnubrögð ráðamann

Bandalag háskólamanna lýsir óánægju með vinnubrögð heilbrigðisráðherra við undirbúning og kynningu á breytingum í heilbrigðisþjónustu í landinu.

Jafnt stjórnendur og starfsfólk þeirra stofnana sem um ræðir hafa verið sniðgengin í ákvarðanaferlinu, svo og stéttarfélög og samtök launamanna.

Þessar breytingar snerta kjör starfsfólks og notenda heilbrigðisþjónustunnar svo um munar og ekki ásættanlegt að þær séu gerðar einhliða af ráðherra.

Flutningur þjónustu veldur alltaf skerðingu til lengri eða skemmri tíma og því afar alvarlegt ef verið er að gera breytingar breytinganna vegna, eins og virðist eiga við á Sankti Jósefsspítala í Hafnarfirði.

Samráð ríkisstjórnar og launþegahreyfingar verður innantómt orð á meðan ráðamenn ganga fram með þeim hætti sem verið hefur undanfarið.