Ný búsetureglugerð - Ályktun stjórnar ÞÍ

Reykjavík 8. mars 2011
 
 
 
Ályktun stjórnar Þroskaþjálfafélags Íslands
 
Þroskaþjálfafélag Íslands (ÞÍ) fagnar nýrri reglugerð nr. 1054 frá 29. desember 2010 um þjónustu við fatlað fólk á heimili sínu. Markmið hennar eru í takt við sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og samræmast einnig hugmyndafræði þroskaþjálfunar sem byggir m.a. á jafnrétti, virðingu fyrir sjálfsákvörðunarrétti og mannhelgi. Með þroskaþjálfun er unnið á fræðilegan og skipulegan hátt í samstarfi við þjónustunotendur að því, að stuðla að jákvæðum viðhorfum, efla færni og auka skilning á aðstæðum fólks sem býr við skerðingar. Hugmyndafræði þroskaþjálfunar er grundvölluð í lögum og reglugerð, starfskenningu og siðareglum þroskaþjálfa.
Til að framfylgja markmiðum nýrrar reglugerðar er tekið fram í 8. grein um framkvæmd þjónustu á heimilum fatlaðs fólks, að sá sem hefur mannaforráð og ber faglega ábyrgð á daglegu starfi með fötluðu fólki á heimilum þess skuli hafa þekkingu og reynslu af starfi með þeim og menntun til slíkra starfa ef mögulegt er. Stjórn ÞÍ vill koma á framfæri óánægju sinni að notað sé orðalagið „ef mögulegt er“ og telur það draga úr mikilvægi þess að menntunar sé krafist. Þroskaþjálfar hafa um áratuga skeið leitt þjónustu og verið í fararbroddi í starfi með fötluðu fólki og er eina fagstéttin sem sérstaklega hefur menntað sig til að starfa með fólki á öllum aldri sem býr við skerðingu. Sérstaða þroskaþjálfa er annars vegar þekking á sviði stefnumótunar, skipulags og framkvæmdar heildrænnar þjónustu og hins vegar einstaklingsmiðaðrar þjónustu, óháð aldri og aðstæðum. Í 7. gr. reglugerðar kemur fram að fatlað fólk eigi rétt á að gerð sé einstaklingsbundin þjónustuáætlun. ÞÍ vill vekja athygli á því að eitt að sérsviðum þroskaþjálfunar er að setja upp einstaklingsmiðaða þjónustuáætlun og framfylgja henni í samstarfi við fatlað fólk.
 Til að hægt sé að fylgja eftir markmiðum og framkvæmd þjónustunnar í nýrri reglugerð telur stjórn ÞÍ þroskaþjálfa nauðsynlega fagstétt til að hægt sé að tryggja faglega þjónustu og að réttindum fatlaðs fólks á heimilum þess sé framfylgt. 
 
Virðingarfyllst
Stjórn þroskaþjálfafélags Íslands.