Niðurstaða Umboðsmanns Alþings vegna ráðningar forstöðumanns
Loks er komin niðurstaða hjá Umboðsmanni Alþingis vegna máls eins félagsmanns ÞÍ sem kvartaði um ákvörðun á ráðningu í starf forstöðumanns í búsetuþjónustu við fatlað fólk hjá tilteknu sveitarfélagi
Þroskaþjálfi leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir ákvörðun um ráðningu í starf forstöðumanns í búsetuþjónustu við fatlað fólk hjá X-kaupstað. Þroskaþjálfinn taldi m.a. að sú sem hefði verið ráðin í starfið hefði ekki uppfyllt almennar kröfur um hæfni þar sem í auglýsingu um starfið hefði verið gerð krafa um háskólamenntun en sú sem fékk starfið hefði ekki slíka menntun. Athugun umboðsmanns laut að því hvort ráðning starfsmanns með aðra menntun en „óskað var eftir“ í auglýsingu um starfið hefði samrýmst lögum.
Umboðsmaður fjallaði sérstaklega og með almennum hætti um efni auglýsinga um opinber störf og þá með tilliti til þýðingu þeirra upplýsinga sem koma fram í auglýsingu og lúta að hæfis- og hæfniskröfum og framsetningu þeirra. Hann tók m.a. fram að auglýsing um laust opinbert starf, fæli í sér formlega og opinbera tilkynningu um að stjórnvaldið hefði hafið tiltekið stjórnsýslumál sem miði að því að ráða í tiltekið starf eða tiltekin störf úr hópi umsækjenda. Borgararnir ættu m.a. af lestri þess sem stjórnvöld birta að geta gert sér grein fyrir hvaða skilyrði þeir þurfa að uppfylla til þess að geta komið til greina til að njóta tiltekinna réttinda eða gæða sem stjórnvöld taka ákvörðun um. Forsenda fyrir því að einstaklingar gætu gert sér grein fyrir hvort þeir hefðu áhuga á því að sækja um auglýst starf væri að þeir gætu af lestri auglýsingarinnar gert sér grein fyrir því hvers eðlis starf væri, hvaða lágmarks hæfis- og hæfniskröfur umsækjendur þyrftu að uppfylla og hvaða meginsjónarmiðum væri fylgt við val úr hópi umsækjenda. Upplýsingar um þessi atriði væru jafnframt forsenda þess að umsækjendur gætu lagt fram með umsókn sinni þær upplýsingar og gögn sem þeir teldu að gætu skipt máli við mat á umsókn þeirra hjá stjórnvaldinu.
Umboðsmaður tók fram að í auglýsingu um umrætt starf hefði sagt að „óskað [væri] eftir starfsmanni sem [hefði] lokið þroskaþjálfanámi eða öðru sambærilegu háskólanámi.“ Í starfið hefði síðan verið ráðinn einstaklingur sem hefði ekki lokið háskólanámi heldur var sjúkraliði að mennt. X-kaupstaður hefði bent á að í málinu ekki hefði staðið til að gera kröfu um tiltekna menntun. Umboðsmaður taldi að hvað sem því liði yrði af framsetningu og orðalagi auglýsingarinnar dregin sú ályktun að krafa hefði verið gerð um tiltekna menntun í starfið. Hann taldi að það hefði ekki verið málefnalegt og forsvaranlegt að víkja frá þeirri kröfu um menntun sem sett var fram í auglýsingu um starfið og ráða á grundvelli auglýsingarinnar starfsmann sem hefði annars konar menntun. Ákvörðun X-kaupstaðar hefði að þessu leyti ekki verið í samræmi við lög.
Umboðsmaður beindi þeim tilmælum til X-kaupstaðar að leitað yrði leiða til að rétta hlut þroskaþjálfans og taka framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem komu fram í álitinu.
sjá nánar hér