Neyðarlög - samantekt
Á vef BHM er sett fram helstu atriði í Neyðarlögum sem Alþingi setti nú á dögunum vegna bankakreppunar sem á okkur dynur nú. Þarna er þetta sett fram í einföldu máli sem fólk skilur. Svo við fengum þetta bara lánað og þið getið lestið þetta hér fyrir neðan.
Neyðarlög - samantekt
Þann 6. október sl. voru samþykkt á Alþingi lög 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. Fela þessi lög það í sér m.a að við sérstakar og mjög óvenjulegar aðstæður á fjármálamarkaði er fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs heimilt að reiða fram fjármagn til að stofna nýtt fjármálafyrirtæki eða yfirtaka fjármálafyrirtæki eða þrotabú þess í heild eða að hluta. Þessum heimildum hefur þegar verið beitt eins og alþjóð veit.
Ekki er hægt að veita tæmandi upplýsingar um hvað lögin fela í sér og verður tíminn einn að leiða það í ljós. Það eru hins vegar nokkur atriði sem eru skýr eins og komið hefur fram í fjölmiðlum:
1. Innistæður á hefðbundnum innlánsreikningum eru tryggðar. Ríkisstjórn Íslands hefur sent frá sér tilkynningu þar sem fram kemur að innistæður í innlendum viðskiptabönkum, sparisjóðum og útibúum þeirra hér á landi eru tryggðar að fullu. Með því er átt við innistæður viðskiptamanna sem tilkomnar eru vegna innláns eða millifærslu í hefðbundinni almennri bankastarfsemi og viðskiptabanka eða sparisjóði ber að endurgreiða samkvæmt skilmálum er gilda samkvæmt lögum eða samningum. Undir þetta falla bæði almennir og óbundnir reikningar en einnig reikningar sem bundnir eru í tíma.
2. Lánveitingar Íbúðalánasjóðs. Kaup skuldabréfa af fjármálafyrirtækjum.: Íbúðalánasjóði er heimilt að kaupa skuldabréf fjármálafyrirtækja sem tryggð eru með veði í íbúðarhúsnæði. Ekki þarf að leita samþykkis skuldara fyrir slíkri yfirfærslu. Ráðherra er heimilt að mæla nánar fyrir um slíka yfirfærslu í reglugerð.
3. Aukin völd Fjármálaeftirlitsins: Fjármálaeftirlitinu er heimilt, samhliða því sem ákvörðun er tekin um að víkja stjórn fjármálafyrirtækisins frá, að skipa því fimm manna skilanefnd sem fari með allar heimildir stjórnar samkvæmt ákvæðum hlutafélagalaga. Skilanefnd skal fara með öll málefni fjármálafyrirtækisins, þar á meðal að hafa umsjón með allri meðferð eigna þess, svo og að annast annan rekstur þess
4. Aðilaskiptalögum vikið til hliðar: Ákvæði laga um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum gilda ekki um yfirtöku fjármálafyrirtækis í heild eða að hluta samkvæmt lögum þessum. Þetta þýðir það að við yfirtöku flytjast ekki réttindi samkvæmt ráðningarsamningi og kjarasamningi starfsmanns.
5. Séreignasparnaður: Forsætisráðherra gaf þá yfirlýsingu þann 6. október sl, að séreignasparnaður landsmanna yrði varinn. Ekki er samt ljóst hvað þessi yfirlýsing þýðir í raun en margir séreignasjóðir eru ávaxtaðir með eignum í hinum ýmsu sjóðum bankastofnana og falla ekki undir tryggingaákvæði Tryggingasjóðslaganna.Sumt af séreignasparnaði landsmanna er hins vegar tryggður á sérstökum innlánsreikningum og er ljóst að sá sparnaður er varinn af Tryggingasjóði og yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar eins og aðrar inneignir. Í neyðarlögunum er að sérstakt finna ákvæði um að innistæður ýmissa séreignasjóða og lífeyrissjóða hjá banka eða sparisjóði séu tryggðar í Tryggingasjóði þrátt fyrir að vörsluaðili eða rekstrarfélag slíkra sjóða sé viðkomandi banki eða sparisjóður. Þegar þetta er skrifað er ekki ljóst hvort þetta geti bætt stöðu séreignarsparnaðar að einhverju leyti.