Móttaka fyrir þá sem brautskrást með BA próf í þroskaþjálfafræði.

Þann 13. júní tók ÞÍ á móti BA útskriftarnemum í þroskaþjálfafræðum í húsnæði félagsins. Allt frá árinu 2014 hafa samtökin veitt viðurkenningu fyrir lokaverkefni til B.A. gráðu í þroskaþjálfafræðum við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Markmiðið er að stuðla að nýsköpun og vekja athygli á framúrskarandi verkefnum sem nýtast fólki með þroskahömlun og skyldar fatlanir og einhverfu fólki.

Leiðbeinendur lokaverkefna tilkynna þau verkefni sem þeim finnst skara fram úr og tekur dómnefnd við öllum tilnefningum og velur þar úr eitt verkefni. Að þessu sinni voru fulltrúar í dómefnd frá Landssamtökunum Þroskahjálp, Þroskaþjálfafélagi Íslands og Háskóla Íslands.

Tilnefnd voru þrjú framúrskarandi verkefni. Öll þessi verkefni eru mikilvæg og það er ósk okkar að sjá þessi verkefni þróast áfram.

Það verkefni sem hlaut viðurkenninguna í ár er ,,Að berja í brestina - Þróun aðgengilegrar geðheilbrigðisfræðslu fyrir einstaklinga með þroskahömlun.''  Fræðileg greinagerð og fræðsluhefti um algengustu geðraskanir, leiðir til að líða vel og meðferðarmöguleika, annað á auðlesnu máli og hitt á auðlesnu máli með myndum til stuðnings. Höfundar verkefnisins eru Dagný Birna Indriðadóttir og Gyða Stefanía Halldórsdóttir.

Mikil vöntun er á fræðslu í tengslum við geðheilbrigði fyrir fólk með þroskahömlun og skyldar fatlanir og einhverft fólk. Verkefnið er því þarft innlegg um geðheilsu, upplýsingar um geðheilbrigði, geðraskanir og meðferðarmöguleika á auðlesnu máli og aðgengilegu formi, sem stuðlar vonandi að bættu heilsulæsi.  Mikilvægi fræðsluefnisins og útfærsla þess er vel rökstudd í greinagerðinni sem byggir á góðri fræðilegri umfjöllun og nýlegum rannsóknum um flesta þá þætti sem tengjast efninu. Þá eykur það gildi verkefnis að útfæra það einnig með myndum sem gerir innihald fræðslunnar enn skýrari og stækkar hópinn sem getur nýtt sér þetta til muna. Verkefnið er því mjög hagnýtt fyrir fólk með þroskahömlun og fyrir fagfólk sem starfar með fötluðu fólki.

Önnur verkefni sem voru tilnefnd:

,.Fordómar og ótti byggja á vanþekkingu‘‘. Bæklingur fyrir verðandi foreldra eða foreldra sem voru að eignast barn með Downs heilkenni. Verkefnið tekur á mikilvægu siðferðilegu málefni sem vert er að vekja athygli á. Bæklingurinn leggur áherslu á að við erum öll einstök og búum yfir ólíkum hæfileikum og eigum öll okkar drauma. Höfundar: Díana Sif Gunnlaugsdóttir og Hanna Dís Elvarsdóttir.

,,Tengjumst.'' Aðgengilegt smáforrit sem tengir saman fatlað fólk og aðstoðarfólk. Smáforrit sem er til þess fallið að ýta undir valdeflingu og sjálfstæði fatlaðs fólks þegar kemur að því að velja sér aðstoðarfólk. Höfundar: Alexandra Einarsdóttir, Daði Steinn Jónsson og Hekla Sóley Arnarsdóttir.

Fleiri myndir er hægt að sjá með því að smella á myndina