Meistaranám í þroskaþjálfafræði
Félaginu hefur borist kynning á framhaldsnámi í þroskaþjáflun til Meistaranáms. Kynningin fer hér á eftir -
Markmið framhaldsnáms í þroskaþjálfafræðum er að gefa þroskaþjálfum er lokið hafa grunnnámi til B.A.-gráðu eða öðru sambærilegu námi kost á að dýpka þekkingu sína og auka færni á fjölbreytilegum fag- og fræðasviðum. Í náminu er lögð áhersla á að nemendur öðlist þekkingu á helstu stefnum, rannsóknum og kenningum á þeim fræðasviðum er leggja grundvöll að störfum fagstéttarinnar. Þar má sérstaklega nefna fötlunarfræði sem eina meginfræðigrein í námi þroskaþjálfa. Í náminu er lögð áhersla á agaða fræðilega umræðu, vísindaleg vinnubrögð og hæfni til þess að leiða umbóta- og þróunarstarf á vettvangi fatlaðs fólks.
Tilhögun námsins
Unnt er að sérhæfa sig á tveimur sviðum: Stjórnun og forystu í starfi þroskaþjálfa og þroskaþjálfafræði - þjónusta við fötluð börn og við fullorðið fatlað fólk.
Stjórnun og forysta - sérsvið
Nemendur geta valið að sérhæfa sig í stjórnun og forystu þar sem stjórnunarhlutverk fagstéttarinnar á vettvangi félagslegrar þjónustu er í brennidepli. Megintilgangur þessa sviðs er að nemendur öðlist þekkingu og skilning á einkennum þeirra stofnana velferðarkerfisins sem hafa það hlutverk að veita fötluðu fólki þjónustu og um leið skapa nemendum tækifæri til þess að efla hæfni sína sem framsæknir stjórnendur.
Þroskaþjálfafræði - sérsvið
Þroskaþjálfafræði a) Þjónusta við börn og unglinga b) Þjónusta við fullorðna og aldraða. Megintilgangur þessarar leiðar er að nemendur öðlist dýpri þekkingu á kenningum, hugmyndum og rannsóknum innan fötlunarfræði bæði í þjónustu við fötluð börn og fjölskyldur þeirra og í þjónustu við fullorðið fatlað fólks. Þau sjónarhorn sem einkum eru höfð til hliðsjónar byggja á valdeflingu og sjálfskávörðunarrétti fatlaðs fólks og fjölskyldna þeirra.
Nám til M.Ed gráðu (120 ECTS) í þroskaþjálfafræðum skiptist í þrjú sameiginleg skyldunámskeið (30 ECTS) og auk þess lokaverkefni í þroskaþjálfafræði (30 ECTS), skyldunámskeið á sérsviði (20- 30 ECTS) og valnámskeiðum (30- 40 ECTS).
Umsjón Guðrún V. Stefánsdótti gvs@hi.is
Skyldunámskeið (fyrir alla)
- Aðferðafræði rannsókna (lokið á 1. önn)
- Kenningar í félagsfræði menntunar (mælt með að ljúka á 1. önn)
- Fötunarfræði og rannsóknir með fötluðu fólki.
Stjórnun og forysta - skyldunámskeið
Stefnur og straumar í velferðarkerfinu Forysta í opinberri stjórnsýslu Þróunarstarf, leiðsögn og mat
Þroskaþjáfafræði – skyldunámskeið
a. þjónusta við börn og unglinga: Vinna með fjölbreyttar þarfir einstaklinga og hópa Siðfræði í starfi með fötluðum
b. Þjónusta við fullorðna og aldraða: Valdefling og sjálfsákvörðunar-réttur Siðfræði í starfi með fötluðum