Landsþing Þroskahjálpar sem haldið var daganal 16. og 17. ok

Á landsþingi Þroskahjálpar sem haldið var í október voru eftirfarandi ályktanir samþykktar:
Mannréttindi.
Landsþing Landssamtakanna Þroskahjálpar skorar á íslensk stjórnvöld að standa vörð um mannréttindi nú þegar efnahagskreppa steðjar að þjóðinni . Mannréttindi eru algild og tryggja manngildi og tilveru sérhvers manns á öllum tímum. Sparnaðarkröfur í opinberri þjónustu mega aldrei vega að réttinum til mannsæmandi lífs. 
Greinargerð:
Fatlað fólk á Ísland er sá hópur landsmanna sem síst naut hins svokallaða efnahagslega góðæris undanfarin ár. Grunnþjónusta við þennan hóp hefur því ekki verið byggð upp í samræmi við þörf og skyldur. Brýnt er að farið verði í markvissa uppbyggingu í þessum málaflokki og jafnframt tryggt að greiðslur til öryrkja tryggi að þeir njóti  fullgildra lífskjara.
Búsetumál.
Landsþing Landssamtakanna Þroskahjálpar skorar félags- og tryggingamálaráðherra að vinna nú þegar raunhæfa áætlun um uppbyggingu þjónustutilboða í búsetu fyrir fatlað fólk á Íslandi.
Greinargerð.
Alvarleg staða er uppi í búsetuþjónustu fyrir fatlað fólk á Íslandi. Uppbyggingu í þessari þjónustu hefur ekki verið sinnt með eðlilegum hætti undanfarin ár og fjöldi þjónustutilboða hefur ekki verið í  samræmi við þörf. Áætla má að a.m.k. 150 einstaklingar ( ath tölu )  séu í þörf fyrir þjónustu í búsetu.   Í frumvarpi til fjárlaga  ársins 2010 eru engin ný þjónustutilboð að finna.   Slíkt aðgerðarleysi mun auka á vandann og skerða lífsgæði fatlaðs fólks.
 Erfitt er að sjá hvernig slík kyrrstaða samræmist áherslum um norrænt velferðarkerfi. Ástæða er til að árétta að réttur til búsetuþjónustu er tryggður í lögum. Þegar ekki er komið til móts við þarfir einstaklinga fyrir þjónustu eru brotin á þeim lög.  
Réttindagæsla.
Landsþing LÞ skorar á stjórnvöld að innleiða hið fyrsta þær tillögur sem lagðar eru fram í skýrslu nefndar um réttindagæslu, nauðung og þvingun sem kynnt var þáverandi félags- og tryggingamálaráðherra vorið 2009. 
Greinargerð
Réttindagæsla fatlaðs fólks á Íslandi er í molum og brýnt að brugðist verði við með lagasetningu og breyttum viðhorfum. Minnt er á að Ísland hefur undirritað samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og þannig skuldbundið sig til að hlíta ákvæðum hans. Í samningnum eru mikilvæg ákvæði er varða réttindagæslu og þjónustu við fatlað fólk sem brýnt er að framfylgja.
 Notendastýrð persónuleg aðstoð
Landsþing Landssamtakanna Þroskahjálpar skorar á félags- og tryggingamálaráðherra að tryggja með lögum rétt fatlaðs fólks til notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar og gera nauðsynlegar ráðstafanir til að gera einstaklingum kleift að njóta slíkrar þjónustu óski þeir þess.
 Umönnunargreiðslur.
Landssamtökin Þroskahjálp mótmæla harðlega þeim áætlunum stjórnvalda að draga úr stuðningi samfélagsins við fjölskyldur fatlaðra barna með afnámi eða lækkun umönnunargreiðslna. Þá hafna samtökin öllum hugmyndum um kostnaðar- eða tekjutengingu greiðslanna. Slíkar grundvallarbreytingar á eðli umönnunargreiðslna eru ekki í samræmi við hlutverk þessa bótaflokks.
Greinargerð:
Á  frumvarpi til fjárlaga ársins 2010 er áætlað 25% minna fjármagn til umönnunargreiðslna en 2009. Umönnunargreiðslur eru hugsaðar sem stuðningur við foreldra fatlaðra og langveikra barna og viðurkenning á að þau þarfnist meiri umönnunar en önnur börn. Vert er að hafa í huga að þessi bótaflokkur varð til m.a. sem aðgerð til að stuðla að því að fötluð börn byggju hjá fjölskyldum sínum í stað þess að vistast á stofnunum. Sú grunnhugsun er enn í fullu gildi. Afturhvarf til fyrri tíma er ekki líklegt til að auka lífsgæði fatlaðra barna og fjölskyldna þeirra eða draga úr samfélagslegum kostnaði. Þá mótmæla samtökin hugmyndum um frekari kostnaðar-  eða tekjutengingu umönnunargreiðslna enda koma umræddar greiðslur til vegna fötlunar og veikinda barnanna en ekki fjárhagsstöðu fjölskyldna. 
 
Diplómanám
Landsþing Landssamtakanna Þroskahjálpar fagnar þeirri ákvörðun Háskóla Íslands að bjóða áfram upp á diplomanám fyrir fólk með þroskahömlun. Sú ákvörðun er ótvíræð viðurkenning á gildi menntunar fyrir ólíka einstaklinga í samfélaginu og stuðlar að auknum tækifærum fatlaðs fólks, jafnrétti og auknum lífsgæðum.