Kynning á starfsmati fyrir félagsmenn starfandi hjá sveitarfélögum
Sameiginleg kynning á starfsmati fyrir félagsmenn ÞÍ og annarra aðildarfélaga BHM sem starfandi eru hjá sveitarfélögunum (öðrum en Reykjavík) verður föstudaginn 24. febrúar í Reykjavík, Borgartúni 6 á 3. hæð. Hefst kynningin klukkan 13:30 og er gert ráð fyrir að hún taki 1,5 klukkustund.
Þeir sem ekki eiga kost á að koma á kynninguna geta horft á hana í streymi, einnig verður hægt að horfa á kynninguna eftir á, eða á þeim tíma sem hverjum og einum þykir henta.
Tengill inn á kynninguna sem hefst stundvíslega 13:30 á föstudaginn.
Í kjarasamningi Sambands íslenskra sveitarfélaga og Þroskaþjálfafélags Íslands kemur eftirfarandi fram, á bls 3 http://www.throska.is/static/files/Kjarasamningar/2015/throskathjalfafelag-islands_lok2016-thi-002-.pdf
Með samkomulagi þessu milli Þroskaþjálfafélags Íslands og Sambands íslenskra sveitarfélaga um breytingar og framlengingu á kjarasamningi aðila er stigið veigamikið skref í þá átt að styrkja samkeppnisstöðu sveitarfélaga vegna háskólamenntaðra sérfræðinga.
Á samningstímanum breytist samsetning heildarlauna háskólamanna og launaröðun starfa verður skv. starfsmatskerfinu SAMSTARF.
Þann 1. apríl 2016 hefst innleiðingarferli starfsmats með nýrri launaröðun starfa til bráðabirgða samkvæmt launatöflu I í fylgiskjali 1. Þann 1. júní 2018 kemur starfsmat að fullu til framkvæmda. Öll störf raðast þá samkvæmt starfsmati, röðun til bráðabirgða fellur úr gildi og laun greiðast samkvæmt launatöflu IV í fylgiskjali 1.