Kjarakönnun - taktu þátt!
BHM, heildarsamtök háskólamenntaðra á vinnumarkaði, gangast nú í fjórða sinn fyrir rafrænni kjarakönnun sem ætlað er að gefa yfirgripsmikla mynd af kjaramálum félagsmanna.
Í aðdraganda kjaraviðræðna hafa notagildi kjarakannana síðustu þriggja ára sannað sig svo um munar, enda hefur góð þátttaka í þeim vakið verðskuldaða athygli. Félagsmenn eru eindregið hvattir til að taka þátt í þessari árlegu könnun og leggja þannig sitt af mörkum til að markmið hennar nái fram að ganga.
Kjarahluti könnunarinnar er nú bæði styttri og einfaldari en áður.
Markmið þessarar árlegu könnunar eru að:
- veita yfirsýn yfir launakjör háskólamenntaðra og fylgjast með þróun launa þeirra, bæði á almennum og opinberum vinnumarkaði
- leggja grunn að gagnvirkri upplýsingaveitu fyrir félagsmenn um launakjör og launasamanburð og
- veita aðildarfélögunum mikilvægar upplýsingar til að byggja á við gerð samninga um kaup og kjör.
Þátttaka í kjarakönnun er mikilvægt framlag félagsmanna og eftir því sem gagnasöfnun vindur fram aukast möguleikar BHM og aðildarfélaga til þjónustu við félagsmenn.
Beiðni um þátttöku mun berast félagsmönnum í tölvupósti á föstudaginn, en það er rannsóknarfyrirtækið Maskína sem sér um framkvæmd könnunarinnar. Rétt er að ítreka að farið verður með öll gögn sem trúnaðarupplýsingar.
Gott er að hafa skattframtal auk launaseðla fyrir desember 2015 og febrúar 2016 við höndina þegar könnuninni er svarað.