"Í aðdraganda kjarasamninga"
Á vegum Samstarfsnefndar um launaupplýsingar og efnahagsforsendur kjarasamninga hefur verið gefin út skýrslan "Í aðdraganda kjarasamninga" þar sem tekin hafa verið saman gögn um laun, launaþróun og efnahagsforsendur kjarasamninga. Að samstarfsnefndinni standa fern heildarsamtök launafólks, ASÍ, BHM, BSRB og KÍ, og vinnuveitendamegin SA, Samband íslenskra sveitarfélaga og fjármála- og efnahagsráðuneytið. Fulltrúi BHM í hópnum er Stefán Aðalsteinsson, framkvæmdastjóri BHM.
Markmið samstarfsins er að bæta vinnubrögð við undirbúning kjarasamninga og auka skilvirkni við gerð þeirra.
Flestir kjarasamningar verða lausir á fyrsta ársfjórðungi 2015. Markmið með skýrslunni er að leggja grunn að nýjum samningum. Í fyrri hluta skýrslunnar er gerð grein fyrir launaþróun í þeim heildarsamtökum sem að samstarfinu standa frá 2006 til 2014. En í seinni hlutanum er horft til næstu ára og fjallað um stöðu og horfur í efnahagsmálum.