Fyrsta landsáætlun í málefnum fatlaðs fólks
Fyrsta landsáætlun í málefnum fatlaðs fólks hefur nú verið birt í samráðsgátt stjórnvalda. Áætlunin felur í sér 57 aðgerðir til að koma í framkvæmd ákvæðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Landsáætlunin er liður í innleiðingu og lögfestingu samningsins hér á landi.
„Landsáætlunin markar tímamót, enda fer nú í fyrsta sinn fram heildstæð stefnumótun í málefnum fatlaðs fólks á Íslandi. Markmiðið er að fatlað fólk geti notið mannréttinda og mannfrelsis til fulls og til jafns við annað fólk,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra.
Fjölmennur hópur fólks vann að gerð áætlunarinnar. Alls störfuðu 11 vinnuhópar með verkefnisstjórn og í hverjum hópi sátu fulltrúar hagsmunasamtaka fatlaðs fólks; Geðhjálpar, Landssamtakanna Þroskahjálpar og ÖBÍ réttindasamtaka, fulltrúar sveitarfélaga og fulltrúar Stjórnarráðsins, þ.e. starfsmenn ráðuneyta eða stofnana þeirra.
33 ákvæðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks var skipt upp á milli vinnuhópanna og á grundvelli greiningar á stöðu hvers ákvæðis hér á landi mótuðu vinnuhóparnir tillögur að aðgerðum til að nálgast markmið samningsins.