Fyrirmyndar umfjöllun á Íslandi í dag
Þroskaþjálfafélag Íslands vill koma á framfæri eftirfarandi ályktun til
Stöðvar 2 og þeim sem halda utan um og bera ábyrgð á Íslandi í dag.
Þroskaþjálfafélag Íslands vill lýsa yfir ánægju sinni með nálgun fréttamanns
í þættinum Ísland í dag 26. nóvember sl. um Ás vinnustofu. Vinnustofan er
rekin af Ás styrktarfélagi þar sem áhersla er lögð á að skapa fólki með
skerta starfsgetu vinnuaðstöðu sem sniðin er að þörfum hvers og eins. Í
Sáttmála sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er kveðið sérstaklega
á um að efla skuli jákvæða staðalímynd fatlaðs fólks með því að hvetja
fjölmiðla til að fjalla um fatlað fólk af virðingu og á jákvæðan hátt.
Umfjöllun fréttamanns var til fyrirmyndar að þessu leyti og undirstrikar
nauðsyn þess að fjölmiðlar vandi umræður og fjalli um fatlað fólk á jákvæðan
hátt.