Þann 24. júní brautskráðust 40 manns með BA-próf og einn með MA-próf í þroskaþjálfafræði í Laugardalshöll. Fyrr um morguninn fór fram útskriftarathöfn fyrir þau 49 talsins sem útskrifuðust með viðbótardiplómu til starfsleyfis í þroskaþjálfafræði
Laugardaginn 24. júní brautskráðust 40 manns með BA-próf og einn með MA-próf í þroskaþjálfafræði í Laugardalshöll. Fyrr um morguninn fór hins vegar fram útskriftarathöfn fyrir þau 49 talsins sem útskrifuðust með viðbótardiplómu til starfsleyfis í þroskaþjálfafræði.
„Það er virkilega ánægjulegt að greina frá því að gífurleg aukning varð á umsóknum í námið nú í vor en þá bárust Háskóla Íslands tæplega 130 nýjar umsóknir sem er um það bil 40% aukning milli ára. Það hefur verið stöðug og góð ásókn í nám í þroskaþjálfafræðum og nú eru um 268 nemendur í náminu. Námið var lengt um eitt ár árið 2018 og hafa nú tveir árgangar brautskrást eftir fjögurra ára háskólanám. Það sem ég tel að hafi áhrif er meðal annars hve fjölbreytt og hagnýtt námið er og spennandi starfsvettvangur, en þroskaþjálfar starfa víða í samfélaginu. “ segir Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs.
Þroskaþjálfafræði er þriggja ára BA-nám auk eins árs nám á framhaldsstigi (viðbótardiplóma). Námið miðar að því að nemendur öðlist sérfræðiþekkingu og hæfni til þess að veita fötluðu fólki fjölbreytilega þjónustu og ráðgjöf. Þroskaþjálfar starfa meðal annars í skóla- og frístundastarfi, á sviði velferðar, innan stofnana samfélagsins og í réttindagæslu fatlaðs fólks. Að mörgu leyti er námið einstakt á heimsvísu og Þroskaþjálfafélag Íslands hefur um árabil byggt upp traustar faglegar stoðir og umgjörð um fagmennsku þroskaþjálfa.
Þess ber að geta að Landssamtökin Þroskahjálp veittu einnig á dögunum viðurkenningu fyrir lokaverkefni til BA-prófs í þroskaþjálfafræðum. Markmiðið með viðurkenningunni er að stuðla að nýsköpun og vekja athygli á framúrskarandi verkefnum sem nýtast fólki með þroskahömlun, skyldar fatlanir og einhverfu fólki. Í ár voru tilnefnd fimm lokaverkefni en verkefnið sem hlaut viðurkenninguna ber heitið Gullkistan. Spil sem er hannað fyrir nemendur sem nýta sér óhefðbundnar leiðir til tjáningar, tákn með tali. Höfundar þess eru Elísa Marey Sverrisdóttir, Sara Hlín Liljudóttir og Snædís Helma Harðardóttir. Leiðbeinandi þeirra var Dr. Anna Björk Sverrisdóttir, aðjúnkt við Menntavísindasvið.
Í dómnefnd voru fulltrúar frá: Landssamtökunum Þroskahjálp, Átaki félag fólks með þroskahömlun og Þroskaþjálfafélagi Íslands ásamt fulltrúa frá HÍ. Í umsögn leiðsagnarkennara kom fram:
„Um er að ræða frumlegt, fallega hannað og vel útfært verkefni sem er ætlað að mæta fjölbreyttum hópi nemenda þegar kemur að námi og félagslegri þátttöku. Þá eykur það gildi verkefnisins að það er einnig hannað með það í huga að nemendur sem nýta sér óhefðbundnar leiðir til tjáningar geti tekið þátt. Með því að hanna spilið með tmt táknum er verið að mæta stærri hópi nemenda en að auki eykur notkun spilsins þekkingu á tmt sem leið til að styðja við tjáningu ólíkra nemenda.“