"Ég er fötluð og má ekki fara í háskóla"
Eftirfarandi grein birist í Fréttablaði Suðurlands
„Ég er fötluð og má ekki fara í háskóla“
Kunningjakona mín og skólasystir í Borgarholtsskóla sat eitt sinn þungt hugsi við hlið mér í pásu á milli kennslustunda í skólanum rétt um það leyti sem við vorum að fara að útskrifast. Hvað ætlar þú að gera, Rakel, þegar þú útskrifast? spurði hún. Ég byrjaði að segja henni frá áformum mínum um að fara að vinna einn vetur og hefja síðan háskólanám og þá jafnvel að fara í þroskaþjálfanám. Þegar ég spurði hana út í hvað hún hafði hugsað sér að gera sagði hún nokkuð sem hafði djúpstæð áhrif á mig....já, gott hjá þér Rakel mín, en veistu, ég veit ekkert hvað ég ætla að gera. Ég er fötluð og má ekki fara í háskóla. Þetta var árið 2003 og því miður var þetta raunin þá. Vorið 2008, þegar ég var stödd á ráðstefnu í Kennaraháskólanum, mætti ég þessari kunningjakonu minni á ganginum í skólanum. Það geislaði af henni gleði og stolt þar sem hún þrammaði inn ganginn með fartölvuna sína í fanginu og sagðist vera byrjuð í háskólanámi. Þarna höfðu orðið breytingar! Og mikið ofboðslega varð ég glöð fyrir hennar hönd. Ég styð það að samfélagið okkar sé samfélag fyrir allt fólk, óháð fötlun og öðrum mannlegum fjölbreytileika.
Hvaða nám og fræðsla stendur fötluðu fólki til boða að framhaldsskólanámi loknu? Hvaða breytingar urðu til þess að Háskólasamfélagið opnaðist fólki með þroskahömlun? Fjölmennt –símenntunar- og þekkingarmiðstöð ses. er miðstöð símenntunar sem þjónar fötluðu fólki 20 ára og eldra. Menntamálaráðuneytið gerði þjónustusamning við Öryrkjabandalag Íslands og Landssamtökin Þroskahjálp um rekstur fullorðinsfræðslu fyrir fatlað fólk og Fjölmennt var þar með stofnuð árið 2002. Á undanförnum árum hefur Fjölmennt rekið þrjár starfsstöðvar, í Reykjavík, á Akureyri og á Selfossi og haldið námskeið á borð við matargerð, tölvu og skapandi starf svo eitthvað sé nefnt. Hlutverk Fjölmenntar er að veita heildræna þjónustu í formi fræðslu, ráðgjafar, stuðnings og félagsstarfa. Með þessa þætti að leiðarljósi ásamt hugmyndafræði sem felur í sér fulla samfélagslega þátttöku fatlaðs fólks hefur Fjölmennt þróað starfsemi sína í þá átt að styðja fatlað fólk til að stunda nám við aðrar símenntunarstöðvar. Sá stuðningur kallast nám með stuðningi. Fjölmennt tók þátt í þróunarverkefni um diplómanám fyrir fólk með þroskahömlun sem hófst haustið 2007 en það var á vegum Kennaraháskóla Íslands og opnaði þar með dyr sem áður voru lokaðar. Nýr þjónustusamningur á milli Fjölmenntar og Menntamálaráðuneytisins tók gildi þann 01.01.2011. Í samningnum eru það ákvæði úr Sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem ráða för og hið nýja hlutverk Fjölmenntar skilgreint. Ég vek athygli á því að sáttmálinn er undirritaður af ríkisstjórn Íslands. Í 24.grein sáttmálans er fjallað um menntun og skólagöngu. Þar kemur m.a. fram að til þess að tryggja það að fatlað fólk fái tækifæri til jafns við aðra til menntunar verði að koma á öflugu menntakerfi á öllum skólastigum auk símenntunar sem er án aðgreiningar. Fatlað fólk fái með þessu tækifæri til þess að geta fullþroskað persónuleika sinn, andlega og líkamlega getu sína ásamt sköpunargáfu og hæfileika.
Nú stendur til að Fjölmennt- símenntunar- og þekkingarmiðstöð ses. geri samstarfssamning við Fræðslunet Suðurlands og þar með mun starfsemin hér á Selfossi breytast. Það er vissulega vont að vera í óvissu til lengri tíma litið og mér finnst skiljanlegt að aðstandendur þátttakenda á námskeiðum Fjölmenntar á Selfossi hafi áhyggjur eins og fram kom í grein sem birtist í Sunnlenska þann 26.janúar síðastliðinn. Þar var greinilega einhver misskilningur á ferðinni því að af umfjölluninni mátti skilja að Fjölmennt væri starf og þar væru vinnustofur en svo er ekki. Þekkt er að tímabil breytinga geti kallað fram tilfinningar eins og ótta og óöryggi. Breytingar eru líka misjafnlega erfiðar fólki en við ættum flest að geta sett okkur í þau spor ef við höfum sjálf farið í gegnum breytingarferli. Hvernig leið mér þegar ég var að byrja í nýju starfi? Hvernig leið mér þegar ég var að byrja í nýjum skóla? Ég get rétt ímyndað mér að þetta nýja fyrirkomulag veki upp ýmsar spurningar, á meðal þátttakenda hjá Fjölmennt á Selfossi og aðstandenda þeirra, hvað varðar framhaldið. Hvaða áhrif mun þetta nýja fyrirkomulag og samstarf hafa í för með sér? Hver verður hugsanlegur ávinningur af samstarfinu? Hvaða námskeið verða í boði? Hvernig verður komið til móts við mínar þarfir svo ég geti nýtt mér fræðsluna? Þetta eru allt þættir sem ekki má gleyma í gleðinni yfir því að loksins er komið að þessum áfanga. En fyrst og fremst langar mig, með þessum geinarskrifum, að benda á mikilvægi þess að samfélagið hér á Suðurlandi fagni þessu nýja fyrirkomulagi. Ég tel að það muni veita ný og spennandi tækifæri á sviði símenntunar og það er í takt við nýja hugmyndafræði og stuðning stjórnvalda við mannréttindabaráttu fatlaðs fólks.
Rakel Þorsteinsdóttir, þroskaþjálfi og fyrrum leiðbeinandi hjá Fjölmennt í Reykjavík og á Selfossi.
Heimildir:
www.fjolmennt.is
http://www.fjolmennt.is/um-fjolmennt/gagnasafn/rannsoknir/nr/620
http://www.velferdarraduneyti.is/media/acrobat-skjol/Samningur_fatladra.pdf