Dómur um mun á ráðningarsamning og kjarasaming

Fimmtudaginn 17. september sl. kvað Hæstiréttur dóm í máli Alhjúkrunar ehf gegn Á þar sem Hæstiréttur dæmdi A ehf. til að greiða Á mismun launa hennar samkvæmt gildandi kjarasamningi og ráðningarsamningi.

Í málinu hélt Á því fram að launakjör sín samkvæmt ráðningarsamningi við A ehf. hefðu verið lakari en gildandi kjarasamningur á félagssvæðinu milli Sjúkraliðafélags Íslands og Samtaka fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu kvað á um. Byggði Á á því að ráðningarsamningur hennar væri því ógildur með vísan til 1. gr. laga nr. 55/1980 og krafði hún A ehf. um mismun launa samkvæmt umræddum kjarasamningi og ráðningarsamningi.

Talið var að A ehf. gæti ekki borið fyrir sig að 1. gr. laganna ætti ekki við hann en félagið taldi sig ekki vera aðila að umræddum kjarasamningi þar sem það hefði ekki veitt neinum umboð til að gera kjarasamning fyrir sína hönd. Þá var ekki fallist á það með A ehf. að Samtök fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu gætu ekki talist aðildarsamtök vinnumarkaðarins í skilningi nefndrar 1. gr. og skipti þá ekki heldur máli að það væri ekki hlutverk samtakanna samkvæmt lögum þeirra að gera kjarasamninga. Gæti A ehf. ekki staðið fyrir utan atvinnurekendasamtök er gerðu kjarasamninga og haldið því síðan fram að ákvæði 1. gr. laga nr. 55/1980 ætti ekki við hans starfsmenn og greitt starfsmönnum sínum lægri laun en kjarasamningar segðu til um. Þá var umræddur kjarasamningur talinn vera almennur í skilningi áðurnefnds ákvæðis. Var A ehf. því dæmt til að greiða Á mismun launa hennar samkvæmt gildandi kjarasamningi og ráðningarsamningi.