Skýrsla um geðheilbrigðisþjónustu fyrir fullorðna einhverfa
Ein af megináskorunum í geðheilbrigðisþjónustu er að tryggja notendum samfellda, samþætta og heildræna þjónustu. Vísbendingar eru um að fólk með einhverfu fái ekki geðheilbrigðisþjónustu sem mætir þörfum þeirra með árangursríkum hætti. Verkefnahópur sem Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra fól að gera ferlagreiningu á geðheilbrigðisþjónustu fyrir þennan hóp og koma með tillögur til úrbóta hefur skilað ráðherra niðurstöðum sínum.
Verkefnahópurinn var skipaður fulltrúum frá heilbrigðisráðuneytinu, Landspítala, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, samtökum einhverfra og sjálfstætt starfandi sérfræðingum. Hópurinn vann náið saman við að greina núverandi stöðu geðheilbrigðisþjónustu og setja fram tillögur um úrbætur sem stuðla að markvissari og einstaklingsmiðaðri nálgun. Leitað var ráðgjafar hjá sérfræðingum í félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu og hluti verkefnahópsins sat jafnframt rýnifund sem Einhverfusamtökin efndu til með félagsmönnum og reyndist það ómetanlegt innlegg í vinnuna.
Ferlagreiningin sem skýrsla og tillögur vinnuhópsins byggjast á, var gerð með það að leiðarljósi að bæta aðgengi og gæði geðheilbrigðisþjónustu fyrir einhverfa, sem glíma oft við flóknar og samsettar geðrænar áskoranir. Áhersla var lögð á heildræna nálgun sem tekur mið af sértækum þörfum hvers og eins. Niðurstöður vinnunar leiða í ljós að bæta má núverandi úrræði og verklag til að tryggja betri þjónustu. Helstu tillögur vinnuhópsins eru þessar:
- Aukið samstarf heilbrigðisráðuneytis, félags- og vinnumarkaðsráðuneytis og mennta- og barnamálaráðuneytis um um bætta þjónustu við einhverfa.
- Opnun þjónustu- og þekkingarmiðstöðvar fyrir einhverfa.
- Geðheilbrigðisþjónusta fyrir einhverfa til framtíðar verði þróuð og útfærð á öllum þjónustustigum til að mæta þörfum þeirra.
- Einhverfumiðuð nálgun verði í allri þjónustu við einhverfa.
- Vitundarvakning til að auka þekkingu og skilning á einhverfu.
- Málastjóri í félagsþjónustu til að styðja einstaklinga með einhverfu til virkni.
- Breytingar á lögum og reglugerðum sem tryggi einhverfum þjónustu við hæfi. Allar sjúkdómsgreiningar einhverfu verði færðar í lög og reglur, greiðsluþátttaka fyrir þjónustu verði samræmd o.fl.
- Einstaklingar með einhverfu fái ákveðinn tengilið í heilsugæslu. Sjúkdómsgreiningakerfið verði uppfært úr ICD-10 í ICD-11. Sýn og yfirlit yfir stöðu einhverfra í samfélaginu verði bætt.
Í verkefnahópnum voru:
• Helga Sif Friðjónsdóttir staðgengill skrifstofustjóra í
heilbrigðisráðuneyti, leiddi verkefnahópinn
• Ásdís Bergþórsdóttir sálfræðingur Krossgötunni, tilnefnd af
Einhverfusamtökunum
• Bjargey Una Hinriksdóttir þroskaþjálfi og teymisstjóri Geðheilsuteymi
taugaþroskaraskana -HH
• Erla Björg Birgisdóttir yfirsálfræðingur Landspítala
• Guðrún Rakel Eiríksdóttir taugasálfræðingur, Virk starfsendurhæfingu
• Ingólfur Sveinn Ingólfsson yfirlæknir, HH-Geðheilsuteymi vestur
• Sigurrós Jóhannsdóttir HH-Sérfræðingur í taugaþroskaröskunum
• Solveig Erna Jónsdóttir teymisstjóri greiningarlínu Þunglyndis- og
kvíðateymis í meðferðareiningar lyndisraskana, Landspítala
Fréttin er tekin af vef Stjórnarráðsins og má finna skýrsluna hér