Brautskráning 33 með viðbótardiplóma í þroskaþjálfafræði til starfsleyfis sem þroskaþjálfar

Laugardaginn 15. júní síðastliðinn brautskráði Háskóli Íslands 2.652 kandídata úr grunn- og framhaldsnámi. Líkt og undanfarin ár var brautskráð í tvennu lagi og fóru brautskráningarathafnirnar fram í Frjálsíþróttahöllinni í Laugardal. Auk þess brautskráðust 33 með viðbótardiplóma í þroskaþjálfafræði til starfsleyfis sem þroskaþjálfar og fengu þeir nú sem áður sérathöf þar sem Þroskaþjálfafélag Íslands fagnaði þeim sérstaklega í Stakkahlíð á Menntavísindasviði.

Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs hélt ávarp við athöfnina og látum við þau orð hér fylgja.

„Þið hafið nú aflað ykkar bæði þekkingar, hæfni og starfsréttindi til að sinna störfum sem eru ómetanlega dýrmæt. Þroskaþjálfar er mikilvæg fagstétt í samfélaginu sem vinnur að mannréttindum, lífsgæðum, jöfnuði, valdeflingu og virkri þátttöku. Gildi og fagmennska þroskaþjálfa hverfist um rétt einstaklinga til að þroskast, lifa og starfa í samfélagi við aðra og njóta lífsgæða.“

Í ávarpi sínu ræddi hún einnig tækni, gervigreind og kosti hennar og galla:

„Á tímum tæknivæðingar þar sem rætt er um að störf muni umbreytast og sum störf hætta að verða til þá er næsta víst að mikil þörf verður fyrir þroskaþjálfa á nánast öllum sviðum mannlífisins. Tækninni og gervigreindinni hefur fleytt gríðarlega fram á síðustu árum og er við það að yfirtaka öll svið lífs okkar, ekki eingöngu atvinnulíf og menntakerfi – heldur einnig okkar eigin persónulegu svæði, svæði sem áður lutu sínum eigin lögmálum, voru okkar eigin. Núna hlöðum við niður alls konar öppum og forritum og deilum upplýsingum um okkar sjálf og fáum ráð og tillögur frá gervigreindinni. Hún leiðbeinir okkur um samskipti, kortleggur svefn, næringu og hreyfingu, sendir okkur sífelld skilaboð, og leitast við að stjórna lífi okkar. Á sama tíma og tæknin er óendanlega mikilvægt verkfæri til að auðvelda okkur lífsverkefnin og ekki síst, aðstoða þau sem búa við skerta getu og jafna aðgengi þeirra að samfélaginu, þá getur tækni og gervigreind líka kippt okkur úr tengslum við eigin veruleika og vilja, og jafnvel slökkt á dómgreind okkar. Gott dæmi er hvernig Google Maps hefur tekið af okkur ansi mörgum hæfileikann til að læra að rata og lesa af korti! Aðalatriðið er þó að tæknin sjálf segir ekkert um hvað skiptir mestu máli eða hvernig lífi er eftirsóknarvert að lifa. Gervigreindarróbót mun ekki koma í stað fagfólks, s.s. þroskaþjálfa eða kennara, hvað þá foreldra, vina eða manneskja í lífi okkar,“ sagði Kolbrún.

Um leið og Þroskaþjálfafélag Íslands óskar ykkur til hamingju með þennan áfanga býður það ykkur sömuleiðis velkomið í félagið.

Fleiri myndir er hægt að sjá með því að smella á myndina.