Alþjóðlegur dagur þroskaþjálfa 2. október
Kæru þroskaþjálfar, hjartanlega til hamingju með alþjóðlegan dag þroskaþjálfa sem og með lögin um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir sem tóku gildi í gær. Þess ber sérstaklega að fagna, því mikil vinna hefur verið lögð í lögin og þau eru góð fyrir þennan tiltekna hóp.
Markmið þessara laga er að fatlað fólk eigi kost á bestu þjónustu, sem á hverjum tíma er tök á að veita, til að mæta sértækum stuðningsþörfum þess. Þjónustan skal miða að því að fatlað fólk fái nauðsynlegan stuðning til þess að það geta notið fullra mannréttinda til jafns við aðra og skapa því skilyrði til sjálfstæðs lífs á eigin forsendum. Við framkvæmd þjónustu við fatlað fólk skal virðing borin fyrir mannlegri reisn þess, sjálfræði og sjálfstæði.
Störf þroskaþjálfa eru lögvernduð og í reglugerð okkar segir m.a. "Í starfi þroskaþjálfa felst enn fremur að efla lífsgæði fatlaðs fólks og auka þátttöku þess í samfélaginu."
Auk þess er tekið sérstaklega á hæfi starfsmanna í lögunum sem sveitarfélög skulu hafa og eru það menntað fólk í þroskaþjálfun og má óska stéttinni til hamingju með þetta.
Hins vegar er ekki nægjanlegt að lögin ein og sér séu góð, allir þurfa að taka þau til sín sem veita þessum hópi fólks þjónustu því það er á ábyrgð okkar allra hvernig til tekst. Félagið og Landssamtökin Þroskahjálp héldu morgunverðarfund í tilefni þessa þar sem haldin var kynning og er hægt að horfa á hana hér
Gildi þroskaþjálfa eru áræðni, þróun og sveigjanleiki og stéttin því tilbúin að taka þessum lögum fagnandi.
Til hamingju með daginn!
#thefinestjobintheworld
#socialeducator
#þroskaþjálfi