Brýnt að standa vörð um kjör háskólamanna
Ályktun aðalfundar Bandalags háskólamanna, 29. apríl 2009
„Aðalfundur Bandalags háskólamanna haldinn þann 29. apríl 2009 óskar væntanlegri ríkisstjórn velfarnaðar í starfi. BHM beinir því til hennar að huga að málefnum háskólamanna á vinnumarkaði og standa vörð um velferð og menntun landsmanna.
BHM hvetur stjórnvöld til að halda vöku sinni hvað varðar fólks- og atgervisflótta af völdum atvinnuleysis og erfiðs efnahagsástands.
Bandalagið leggur áherslu á að það mun standa vörð um kjör félagsmanna sinna, sem þegar hafa rýrnað verulega vegna kaupmáttarskerðingar, brottfalls yfirvinnu, breytinga á vaktakjörum og lækkunar starfshlutfalls á sama tíma og álag í starfi hefur víða aukist.
Bandalagið ítrekar mikilvægi lífeyrissjóða landsmanna og nauðsyn þess að fjármunum þeirra sé varið með hagsmuni sjóðsfélaga í huga hvað varðar öryggi og ávöxtun.
Samráðsferli aðila vinnumarkaðarins hefur liðið fyrir takmarkaða aðkomu ríkisvaldsins. BHM leggur ríka áherslu á að slíkt samráð verði til staðar og telur ómögulegt að ná sátt um þær aðgerðir sem grípa þarf til á næstu misserum nema svo verði.“
Nánari upplýsingar veita:
Guðlaug Kristjánsdóttir, Formaður BHM
s. 899 2873
Stefán Aðalsteinsson, framkvæmdastjóri BHM
s. 821 9310
Um Bandalag háskólamanna
Bandalag háskólamanna er samtök 24 stéttarfélaga háskólamenntaðra og eru félagar í dag rúmlega tíu þúsund.
Félagsmenn innan aðildarfélaga bandalagsins er háskólamenntað fólk sem starfar á öllum sviðum íslensks atvinnulífs, jafnt hjá ríki, sveitarfélögum, sjálfseignarstofnunum og einkafyrirtækjum.