BA ritgerðir þroskaþjálfanema verðlaunaðar
Frá árinu 2014 hafa Landssamtökin Þroskahjálp verðlaunað nemendur í þroskaþjálfafræðum við Menntavísindasvið Háskóla Íslands fyrir B.A. verkefni með það að markmiði að vekja athygli á framúrskarandi verkefnum og stuðla að nýsköpun.
Leiðsagnarkennarar lokaverkefna í þroskaþjálfafræðum tilnefndu verkefni til umsjónarmanna lokaverkefna og dómnefnd, sem skipuð er fulltrúum frá Landssamtökunum Þroskahjálp, Þroskaþjálfafélagi Íslands og umsjónamanni lokaverkefna í þroskaþjálfafræðum.
Verkefnin sem tilnefnd voru í ár voru vel unninn og mikill metnaður lagður í útfærslu þeirra. Valið var erfitt og því var ákveðið að velja þrjú verkefni, í stað tveggja eins og venjan er.
Tvö verkefni deildu 2. sæti, það voru
- „Hreyfing dagsins og góð ráð (verkefnabók og greinagerð)“ eftir þær Guðnýju Hönnu Sigurðardóttur og Selmu Shwaiki.
- „Það læra börn sem fyrir þeim er haft – hugmyndir af félagsfærniþjálfun“ eftir Önnu Maríu Snorradóttur.
Í 1. sæti var verkefnið „Enginn er eins“ eftir Anderu Rut Birgisdóttur og Maríu Erlu Finnbjörnsdóttur. Leiðbeinandi var Ruth Jörgensdóttir Rauterberg.
Verkefnið fólst í gerð barnabókarinnar Enginn er eins, og greinargerð. Í umsögn um verkefnið segir: „Barnabókin er aðlaðandi og eru myndirnar í bókinni einstaklega fallegar. Með bókinni opna höfundar á mikilvæga umræðu. Verkefnið er frumlegt, felur í sér nýsköpun og hefur fræðilegt og hagnýtt gildi og er það mikilvægt framlag til faglegrar umræðu innan þroskaþjálfafræða. Í verkefninu setja höfundar eitt af lykilhlutverkum þroskaþjálfa í brennidepil: að stuðla að vitundarvakningu og fræðslu. Það er krefjandi verkefni að búa til barnabók sem er fræðandi og aðgengileg en eykur ekki á staðalímyndir um ákveðnar skerðingar og gera höfundar vel grein fyrir öllum áskorununum sem því fylgdu. Höfundar benda á að fræðsla um fötlun felst í fræðslu um mannréttindi, um félagsleg sjónarhorn á fötlun og margbreytileika, um aðgengi og um sameiginlega ábyrgð okkar allra á að skapa inngildandi samfélag. Þar með nær fræðslan einnig til foreldra og fagfólks sem koma til með að lesa bókina með börnunum.“
Veittur var peningastyrkur til verðlaunaverkefna. 1. sæti hlaut 100.000 kr. og verkefnin sem deildu 2. sæti hlutu 50.000 kr.
Við óskum vinningshöfum innilega til hamingju, sem og öllum útskriftarnemum úr þroskaþjálfafræðum.