Ályktun stjórnar BHM vegna kröfugerðar SA á hendur ríkisstj

Stjórn Bandalags háskólamanna gerir alvarlegar athugasemdir við kröfur Samtaka atvinnulífsins á hendur ríkisstjórninni í tengslum við gerð kjarasamninga á almennum markaði. Þar er þess krafist að hið opinbera fylgi sömu launastefnu og SA hefur sett fram gagnvart sínum viðsemjendum. Ríki og sveitarfélög hafa ekki komið að mótun þeirrar stefnu, hvað þá samtök opinberra starfsmanna, og dæmalaust ósvífið að ætlast til þess að kjör opinberra starfsmanna verði ákveðin af öðrum en þeim sem um þau eiga að semja. Stéttarfélög Bandalags háskólamanna eru með sjálfstæðan samningsrétt og munu að sjálfsögðu standa fast á þeim rétti. Launakannanir hafa ítrekað sýnt fram á að laun hjá hinu opinbera eru 20-30% lægri en á almennum markaði og úr því þarf að bæta.
Stjórn BHM minnir einnig á að í stefnuyfirlýsingu núverandi ríkisstjórnar er kveðið á um að dregið skuli úr kynbundnum launamun og að sérstaklega verði hugað að því að bæta kjör kvennastétta. Til að ná þessum markmiðum þarf verulegar leiðréttingar á kjörum stórra hópa hjá hinu opinbera.