Ályktun frá starfsdögum Þroskaþjálfafélagsins

Þroskaþjálfafélag Íslands fordæmir harðlega aðferðir og framkvæmd niðurskurðaraðgerða Reykjavíkurborgar. Aðgerðir sem mismuna starfsmönnum og bitna ekki hvað síst á fötluðum nemendum í grunnskólum borgarinnar og fötluðu fólki í búsetuþjónustu. 
Réttindabarátta og réttindagæsla er stór þáttur í starfi þroskaþjálfa og er hugmyndafræði þroskaþjálfunar grundvölluð í lögum, reglugerð og siðareglum þroskaþjálfa.
Þroskaþjálfafélag Íslands hefur komið á framfæri formlegri kvörtun til forsvarsmanna Reykjavíkurborgar, yfir því algera samráðs- og samstarfsleysi sem viðhaft hefur verið í aðdraganda og framkvæmd niðurskurðaraðgerða Reykjavíkurborgar. Sérstaklega er félagið ósátt við framkvæmd aðgerðanna í grunnskólum borgarinnar þar sem ekki er gætt jafnræðis milli starfsmanna og niðurskurðarreglurnar virðast ekki ganga upp.
Spyrja má hvort gerðar hafi verið áætlanir um hvernig bregðast eigi við minni þjónustu til skjólstæðinga þroskaþjálfa. Þroskaþjálfafélag Íslands hefur að minnsta kosti ekki verið haft með í ráðum. Jafnframt hvort það sé stefna Reykjavíkurborgar að fatlaðir nemendur verði fyrstir fyrir barðinu á niðurskurðinum.