Ályktun aðalfundar BHM um lífeyrismál

  
Aðalfundur BHM, haldinn þann 29. apríl 2011, minnir á að lífeyriskjör hafa um langt skeið verið hluti af launakjörum opinberra starfsmanna.
 
Aðalfundur BHM fordæmir þær hugmyndir sem kynntar hafa verið í samningaviðræðum á almennum vinnumarkaði og fela í sér verulega skerðingu á lífeyriskjörum opinberra starfsmanna. Jafnframt fagnar fundurinn yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 29. mars síðastliðnum þar sem þessum skerðingarhugmyndum er í raun hafnað og skorar á stjórnvöld að standa með starfsmönnum sínum gegn árásum utanaðkomandi aðila.
 
Aðalfundur BHM krefst þess að fulltrúar fjármálaráðherra í stjórn LSR fari að lögum og samþykki nauðsynlega hækkun iðgjalds launagreiðanda í A-deild sjóðsins, þannig að sjóðurinn standi undir lífeyrisloforðum.
 
Aðalfundur BHM beinir því til aðildarfélaga bandalagsins að þau bindi sig ekki þannig með kjarasamningum að hægt verði að ráðast á lífeyriskjör í skjóli friðarskyldu.
 
 
Aðalfundur BHM ítrekar fyrri samþykktir um að bandalagið sé tilbúið að standa að nýskipan lífeyrismála, sé eftirfarandi skilyrðum fullnægt:
·        Staðið verði að fullu við núverandi lífeyrisskuldbindingar gagnvart sjóðfélögum B-deildar LSR og LSS hvort sem þeir hafa hafið töku lífeyris eða ekki.
·        Tryggt verði að lögbundin réttindi í A deild LSR og samningsbundin réttindi í LSS haldist óbreytt, og að þeir sem eru í þessum sjóðum nú eigi rétt á að vera þar áfram með óbreyttum kjörum.
·        Sá munur sem kann að verða á núverandi kerfi og nýju lífeyriskerfi verði bættur að fullu í launum.
 
Aðalfundur BHM leggur þunga áherslu á að meginhlutverk lífeyrissjóða er að greiða sjóðfélögum lífeyri, ekki að vera handraði fyrir stjórnvöld eða vogarafl fyrir aðila vinnumarkaðar.