Ályktun aðalfundar BHM um kjaramál

 
 
Aðalfundur BHM haldinn 29. apríl 2011 krefst þess að gengið verið af krafti til kjarasamningaviðræðna við stéttarfélög bandalagsins. Fundurinn hafnar því alfarið að umræður um skipan fiskveiðistjórnunarmála haldi samningum félaganna í gíslingu. Félögin innan BHM hafa nú verið samningslaus í rúm tvö ár. Á þessum tveimur árum hafa laun háskólamanna sem starfa hjá því opinbera lækkað, eða í besta falli haldist óbreytt meðan hækkanir hafa verið á almennum vinnumarkaði.
Aðalfundur BHM krefst þess að laun háskólamenntaðra verði hækkuð þar sem nú þegar er brostinn á atgervisflótti sem þarf að bregðast við.
Laun sérfræðinga á almennum vinnumarkaði eru nú þriðjungi hærri en laun félagsmanna BHM hjá ríki. Þessi munur má ekki haldast og honum verður að eyða án tafar.
Aðalfundur BHM leggur áherslu á að leiðin að þeirri framtíðarsýn sem birtist í “Ísland 2020“ verði vörðuð með áþreifanlegum hætti og áhersla á þekkingarsamfélag og vel launuð störf menntaðs vinnuafls verði raunveruleg.
 
Krafa aðildarfélaga BHM í yfirstandandi kjaraviðræðum er að:
  • Leiðrétt verði kaupmáttarskerðing félagsmanna frá miðju ári 2008.
  • Markvisst verði unnið að því að háskólamenntun sé metin til launa.
  • Tækifæri háskólamenntaðra til sí- og endurmenntunar verði efld.
  • Skuldabyrði vegna námslána verði viðurkennd til jafns við aðrar skuldir.  Komið verði til móts við greiðendur námslána.  Greiðslubyrði vegna námslána, sem nú jafnast á við ein mánaðarlaun á ári, verði létt.
  • Lög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna verði endurskoðuð. Almennt ákvæði um yfirvinnuskyldu verði fellt út og  einnig verði ákvæði um skyldu til að hlíta breytingum á starfi fellt út eða því breytt þannig að ákvæðum ráðningarsamninga verði ekki breytt einhliða.
  • Vinnulöggjöf verði breytt þannig að nýr kjarasamningur gildi frá þeim degi þegar sá sem fyrir er fellur úr gildi.
  • Staðið verði við fyrirheit um starfsendurhæfingarsjóð, iðgjald í hann verði lögbundið og þátttaka lífeyrissjóða í sjóðnum tryggð.
  • Uppsagnarfrestur starfsmanna 55 ára og eldri verði lengdur.