Ályktanir frá fulltrúarfundi Þroskahjálpar 2010
Ályktanir fulltrúafundar 2010
Yfirfærsla þjónustu við fatlaða frá ríki til sveitarfélaga 2011
• Fulltrúafundur Landssamtakanna Þroskahjálpar fagnar því að um næstu áramót mun sértæk félagsþjónusta við fatlað fólk flytjast frá ríki til sveitarfélaga. Breytingin felur í sér að fatlað fólk mun sækja alla félagsþjónustu til sama aðila og íbúar almennt. Slíkt felur í sér aukna samskipan fatlaðs fólks og ófatlaðs og vekur vonir um bætta þjónustu í nærsamfélaginu.
• Fundurinn fagnar þessum merku tímamótum og skorar á stjórnvöld að ljúka nú þegar þeim nauðsynlegu verkefnum sem þörf er á til að yfirfærslan geti orðið að veruleika.
Réttindagæsla
• Fulltrúafundur Landssamtakanna Þroskahjálpar skorar á stjórnvöld að innleiða hið fyrsta þær tillögur sem lagðar eru fram í skýrslu nefndar um réttindagæslu sem afhent var þáverandi félags- og tryggingamálaráðherra í mars 2009.
• Greinargerð:
• Réttindagæsla fatlaðs fólks á Íslandi og eftirlit með þjónustu er óviðunandi eins og staðfest er í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar. Brýnt er að brugðist verði við með lagasetningu og breyttum viðhorfum. Minnt er á að Ísland hefur undirritað samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og þannig skuldbundið sig til að hlíta ákvæðum hans. Í samningnum eru mikilvæg ákvæði er varða réttindagæslu og þjónustu við fatlað fólk sem brýnt er að framfylgja. Samningur S.Þ.
Samningur S.Þ.
• Fulltrúafundur LÞ skorar á stjórnvöld að lögfesta og innleiða hið fyrsta samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks og raungera ákvæði hans í íslensku samfélagi.
• Greinargerð:
• Samningur SÞ um réttindi fatlaðs fólks var undirritaður af Íslands hálfu árið 2007 og eru íslensk stjórnvöld skuldbundin að hlíta ákvæðum hans. Brýnt er að samningurinn verði lögfestur fyrir 1.jan.2011 og að nauðsynlegar lagabreytingar verði gerðar til að uppfylla ákvæði hans sbr. skýrslu nefndar félags- og tryggingamálaráðuneytisins um fullgildingu samningsins sem afhent var þáverandi félags- og tryggingamálaráðherra 12. janúar 2010.
• Fundurinn skorar á stjórnvöld að fela dóms – og mannréttindaráðuneytinu lögsögu samningsins.