Álit umboðsmanns alþingis á einelti á vinnustöðum
08.09.2009
Athafnaskylda hvílir á ráðherra til að gera nauðsynlegar ráðstafanir á grundvelli yfirstjórnunar- og eftirlitsheimilda sinna þannig að einelti á vinnustað sé aflétt- Mál nr. 5718/2009.
Umboðsmaður ákvað að taka til athugunar að eigin frumkvæði, hvernig almennt væri háttað aðkomu ráðuneyta að málum þar sem fyrir lægi:
1) Að tiltekinn kerfisvandi væri til staðar í starfsemi undirstofnunar,
2) verulegir samskiptaörðugleikar væru á milli starfsmanna eða
3) jafnvel að fram hefðu komið ásakanir hjá starfsmanni um einelti af hálfu annarra starfsmanna og/eða yfirmanns stofnunar.
Afmarkaðist athugun umboðsmanns við það álitaefni hvort og þá hvaða skyldur hvíla á ráðherra að lögum til að bregðast við með raunhæfum og virkum hætti í slíkum tilvikum. Umboðsmaður taldi að á ráðherra gæti hvílt bein jákvæð skylda til að grípa til virkra úrræða á grundvelli yfirstjórnunar- og eftirlitsheimilda þegar fyrir lægi að mati ráðuneytis að þess hefði ekki verið gætt um nokkurn tíma í starfsemi undirstofnunar að haga innra skipulag hennar og málsmeðferð, hvort sem væri inn á við gagnvart starfsmönnum stofnunar, eða út á við gagnvart borgurunum, með þeim hætti sem áskilið væri í lögum.
Umboðsmaður taldi að ásökun starfsmanns um að forstöðumaður opinberrar stofnunar beitti sig einelti eða brygðist ekki við einelti annarra starfsmanna, ætti almennt séð að gefa ráðherra tilefni til að kanna með sjálfstæðum hætti hvort grundvöllur væri fyrir slíkri ásökun og þá hvort rétt væri eftir atvikum að grípa til úrræða gagnvart forstöðumanni samkvæmt ákvæðum laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur ríkisins.
Ráðuneyti bæri að taka með beinum og skýrum hætti afstöðu til þess hvort skylda hvíldi á því til að grípa til raunhæfra og virkra úrræða á grundvelli yfirstjórnunar- og eftirlitsheimilda sinna.
Umboðsmaður nefnir eftirfarandi sem dæmi um almenn eða sértæk úrræði: „Sem dæmi um almenn úrræði getur hlutaðeigandi ráðuneyti ákveðið að móta verklagsreglur sem beinast eftir atvikum annaðhvort almennt að undirstofnunum sínum eða tiltekinni undirstofnun þar sem er að finna reglur sem taka með almennum hætti á þeim vanda sem er fyrir hendi eða kann að rísa. Sem dæmi um sértæk úrræði getur ráðuneyti, ef brýn nauðsyn krefur, gefið forstöðumanni undirstofnunar á grundvelli yfirstjórnunar- og eftirlitsheimilda fyrirmæli varðandi einstök mál, það getur kallað tiltekið mál til sín ef ekki er um að ræða ákvörðun sem lög áskilja að sé tekin hjá undirstofnun í fyrstu atrennu, og jafnvel sett annan mann í embætti forstöðumanns til að leysa úr því tiltekna máli ef þess er þörf vegna ágreinings.“
EG/sept 09