Af vef félagsmálaráuneytis vegna efnahagsástands

Á þessum erfiðu tímum viljum við benda fólki á þessar tvær tilkynningar af vef félagsmálaráðuneytis. -

 

Úrræði Íbúðalánasjóðs fyrir heimili í greiðsluvanda efld

15.10.2008

Félags- og tryggingamálaráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, hefur með reglugerðarbreytingu rýmkað heimildirÍbúðalánasjóðs til að koma til móts við lántakendur sem lenda í greiðsluvanda.

Íbúðalánasjóður hefur jafnframt mildað innheimtuaðgerðir stofnunarinnar með tilliti til ástands efnahagsmála.

Frestur frá gjalddaga til sendingu greiðsluáskorunar verður framvegis fjórir til fjórir og hálfur mánuður frá elsta ógreidda gjalddaga í stað tveggja til tveggja og hálfs mánaðar áður. Heimilt er að afturkalla nauðungarsölu gegn greiðslu þriðjungs vanskila í stað helmings vanskila áður og rýmingarferli uppboðsíbúða hefur verið lengt úr einum mánuði í þrjá mánuði. Þá hafa heimildir til greiðslufrestunar vegna sölutregðu á eldri íbúð verið rýmkaðar verulega. Íbúðalánasjóði bætist einnig það úrræði að lántakendur eigi val um að greiða eingöngu vexti og verðbætur af vöxtum í tiltekinn tíma, leiði það til lausnar á vandanum.

Umræddar heimildir koma til viðbótar eldri úrræðum, skuldbreytingum vanskila, lengingu lána og frystingu afborgana (höfuðstól, verðbótum og vöxtum) um allt að þrjú ár.

Úrræði Íbúðalánasjóðs vegna greiðsluvanda lántakenda eiga við, hvort sem lánin eru í innlendri eða erlendri mynt, svo fremi að lánin heyri undir Íbúðalánasjóð.

Auk þeirra ákvarðana sem hér hefur verið lýst og hafa þegar tekið gildi mun félags- og tryggingamálaráðherra leggja fram á Alþingi frumvarp til laga sem heimilar Íbúðalánasjóði að lengja lán viðskiptavina sinna um allt að 30 ár í stað 15 ára áður og jafnframt að veita skuldbreytingarlán vegna greiðsluerfiðleika til allt að 30 ára í stað 15 ára áður. Einnig verða útfærðar reglur vegna mögulegrar útleigu Íbúðalánasjóðs á því húsnæði sem stofnunin kann að eignast á nauðungaruppboðum til fyrri íbúa, hvort sem um er að ræða húsnæði í eigu einstaklinga eða leigufélaga. Slík leiga yrði ávallt í takmarkaðan tíma í samræmi við hagsmuni beggja aðila.

 

Og einnig á þessa

Þjónusta Ráðgjafarstofu efld vegna greiðsluvanda heimila

16.10.2008

Í samræmi við tilmæli félags- og tryggingamálaráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur, og samkomulags félags- og tryggingamálaráðuneytisins, Íbúðalánasjóðs og Reykjavíkurborgar hefur verið ákveðið að auka þjónustu Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna vegna núverandi aðstæðna í efnahagslífi þjóðarinnar. Fjármagn hefur verið tryggt til að efla þjónustuna.

Það er verkefni Ráðgjafarstofu að aðstoða þá sem eiga í greiðsluerfiðleikum og er verið að mæta aukinni eftirspurn eftir þjónustu hennar. Starfsmönnum verður fjölgað af þessu tilefni og opnunartími lengdur. Samstarf verður eflt við Velferðarsvið Reykjavíkurborgar um þjónustu. Í framhaldinu er verið að kanna frekari leiðir til að efla og styrkja þjónustuna almennt og á vettvangi sveitarfélaga við þá sem eiga í greiðsluerfiðleikum.

Símanúmer Ráðgjafarstofunnar er 551 4485. Símaráðgjöf er á opnunartíma og einnig netspjallið á heimasíðu Ráðgjafarstofu: www.rad.is

Íbúar á landsbyggðinni geta sent inn umsóknir og eru þær afgreiddar og sendar til baka. Ráðgjafi er einnig á Akureyri tvisvar í mánuði og er bókunarsími þar 460 1420.

Og svo bendum við aftur á Þjónsutvef félagsmálaráðuneytis vegna þessara sérstöku aðstæðna en þar má fá upplýsingar um flest það sem stendur fólki í vanda til boða. Þjónustuvefinn má finna á slóðinni felagsmalaraduneyti.is/upplysingar