50 ára saga þroskaþjálfa gefin út á bók
Laust fyrir 1960 settust nokkrar stúlkur á skólabekk á Kópavogshæli til að búa sig undir "gæslu og umönnun vangefinna" eins og það hét í þá daga. Þar hófst saga þroskaþjálfa sem síðan hafa starfað í þágu fatlaðs fólks á Íslandi, einkum fólks með þroskahömlun, og eiga sér fjölbreyttari starfsvettvang en flestar aðrar stéttir.
Mikilr sigrar hafa unnist á langri leið. Menntun þroskaþjálfa hefur tekið margvíslegum breytingum til að mæta kröfum hvers tima og fer nú fram í Háskóla Íslands. Félag þeirra hefur vaxið og dafnað, einkum eftir að það varð stéttarfélag árið 1996 og öðlaðist sjálfstæðan rétt til samninga á vinnumarkaði. Á 50 ára afmæli sínu, 18. maí 2015 telur Þroskaþjálfafafélag Íslands rúmlega 700 félagsmenn sem saman vinna að hag stéttarinnar og eflingu faglegrar vitundar.
Þroskaþjálfar okkar daga starfa alls staðar þar sem eftir kunnáttu þeirra er leitað. Þótt margt hafi breyst í hugmyndaheimi stéttarinnar á hálfri öld er kjarninn í starfinu ætíð sá sami - að standa vörð um mannvirðingu fatlaðs fólks og berjast fyrir rétti þess til fullrar þáttöku í samfélaginu.
Grein um þroskaþjálfa og störf þeirra í gegnum tíðina birtist í Fréttablaðinu, þann 16. maí síðast liðinn, sem birtist hér. Bókin er fáanleg á skrifstofu félagsins fyrir félagsmenn sem og í helstu bókabúðum. Bók sem enginn ætti að láta framhjá sér fara.