2. október alþjóðlegur dagur þroskaþjálfa

 AIEJI alþjóleg samtök þroskaþjálfa (social educators) halda upp á 2. október sem alþjóðalegan dag okkar. Í tilefni dagsins  hvetjum við ykkur til að vekja athygli á deginum á ykkar vinnustöðum, kynna meðfylgjandi yfirlýsingu, störf, starfskenningu og siðareglur þroskaþjálfa.

Yfirlýsing sem samþykkt var 7. maí sl. á heimsráðstefnu AIEJI www.aieji.net -alþjóðlegri ráðstefna þroskaþjálfa í Kaupmannahöfn

Kaupmannahafnaryfirlýsingin

Heimsráðstefnu AIEJI XVll 2009 er ætlað að sundurgreina, vega og meta hvaða möguleika starfsgrein okkar hefur í ljósi hnattvæðingarinnar í heimi sem glímir við alvarlega efnahagslega kreppu.

Það er afar mikilvægt að berjast gegn efnahagskreppunni því hún magnar félagslegan vanda milljóna manna og orsakar örbirgð. Kreppan hefur einkum áhrif á möguleika barna og ungs fólks til að móta sér framtíð og eykur enn á vanda þeirra sem búa við fatlanir og hvers kyns skerðingu.

Okkur ber sem þroskaþjálfum að benda sérstaklega á afleiðingar kreppunnar. Hún kemur harðast niður á börnum, ungu fólki og þeim hópum fullorðinna sem viðkvæmastir eru og búa nú við enn verri aðstæður en áður.

Þroskaþjálfum ber að standa vörð um lífsgæði umbjóðenda sinna og beita bæði yfirvöld í hverju landi fyrir sig og alþjóðleg samtök þrýstingi og krefjast þess að þau annist um þá sem hvað verst hafa orðið fyrir barðinu á kreppunni. Alþjóðlegar hjálparstofnanir eru hvattar til þess að beina sérstaklega fjármagni til verkefna fyrir þá sem ekki hafa greiðan aðgang að samfélagslegum úrræðum í kreppunni.

Þó ekkert jákvætt sé hægt að segja um afleiðingar núverandi efnahagskreppu á mannúðarstörf getur efnahagslegt hrun nýfrjálshyggjunnar fært okkur einstakt tækifæri til þess að takast á við hnattvæðinguna frá nýju sjónarhorni. Nú er lag að gera úrbætur og móta réttlátari og mannúðlegri heim.

Þroskaþjálfum ber að berjast fyrir hnattvæddum heimi sem kemur öllum til góða. Við verðum að heita því að leggja okkar af mörkum til félagslegrar samheldni í samfélaginu. Nauðsynlegt er að stofna til nýrra bandalaga og koma á tengslanetum þvert á öll landamæri. Við þurfum að þróa nýjar og framsæknar leiðir til þess að tryggja réttlæti um heim allan.

Við verðum að stefna að samstarfi þvert á öll landamæri þannig að hnattræn tengslanet og nýir miðlar verði grundvöllur þess að þroskaþjálfar geti sem faghópur aflað sér þekkingar á því hvernig hrinda skuli fagkenningum í framkvæmd og síðan miðlað þeirri þekkingu til annarra. Þegar þekkingu og reynslu er þannig miðlað gagnkvæmt eykur það fagmennsku og getur nýst vel þeim sem við viljum veita aðstoð í störfum okkar.

Þau störf kalla á stöðuga þjálfun, auk þess sem halda þarf áfram að styrkja fagleg gæði til þess að tryggja að við sem þroskaþjálfar veitum umbjóðendum okkar besta mögulega stuðning til mannsæmandi lífs.

Samþykkt af fulltrúum 44 þjóðríkja á AIEJI XVII heimsráðstefnunni í Kaupmannahöfn 7. maí 2009.