Hlé gert á kjaraviðræðum fram í ágúst
Kjaraviðræður við ríkið
Kjarasamningur ÞÍ við ríkið losnaði 1. apríl sl. Í lok júní lagði samninganefnd ríkisins til að gert yrði hlé á kjaraviðræðum í júlí og að viðræðuáætlanir yrðu endurskoðaðar með tilliti til þess. ÞÍ hefur nú undirritað endurskoðaða viðræðuáætlunvið SNR. Alls eru 21 aðildarfélag BHM með lausa samninga við SNR sem hafa gert hið sama..
Vegna þeirra tafa sem orðið hafa á viðræðum við SNR mun ríkið greiða starfsfólki sínu eingreiðslu að upphæð kr. 105.000 þann 1. ágúst nk. Greiðslan er hluti af kostnaðarmati væntanlegra kjarasamninga sem þýðir að hún mun koma til frádráttar mögulegum afturvirkum launahækkunum frá 1. apríl. Með greiðslunni eru hins vegar ekki lagðar línur um væntanlegar launahækkanir í samningunum en sem kunnugt er hafa BHM-félögin hafnað flötum krónutöluhækkunum.
Kjaraviðræður við Samband íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborg
ÞÍ og Samband íslenskra sveitarfélaga (SNS) hafa undirritað endurskoðaða viðræðuáætlun og gert hlé á viðræðum fram í ágúst. SNS fer með samningsumboð í kjaraviðræðum fyrir öll sveitarfélög í landinu nema Reykjavíkurborg. Í endurskoðuðum viðræðuáætlunum aðildarfélaga BHM sem samið hafa um starfsmat við SNS er kveðið á um tvær eingreiðslur til starfsfólks sveitarfélaganna: kr. 100.000 til útgreiðslu 1. ágúst nk. og kr. 80.000 til útgreiðslu 1. nóvember nk. Stefnt er að því að ná samningum fyrir 15. nóvember 2019.
Aðildarfélög BHM sem eiga í kjaraviðræðum við Reykjavíkurborg hafa einnig samið um viðræðuhlé fram í ágúst og undirritað endurskoðaðar viðræðuáætlanir og þar á meðal er ÞÍ. Samkvæmt þeim er stefnt að því að kjarasamningar náist eigi síðar en 15. september 2019. Reykjavíkurborg mun greiða starfsfólki sínu eingreiðslu að upphæð kr. 105.000 þann 1. ágúst nk.
Greiðslurnar frá SNS og Reykjavíkurborg eru einnig hluti af kostnaðarmati væntanlegra kjarasamninga og koma því til frádráttar mögulegum afturvirkum launahækkunum.